Niður með allt

Niður með allt
(Lag / texti: Snæbjörn Ragnarsson / Sævar Sigurgeirsson)

Mig langar að deila hér með ykkur því
sem mig hefur sótt á og pælandi er í.
Ég skoðað hef hlutina skýrt og ég tel
að sköpunarverkið það endi ekki vel.

Ég held að það sé allt á húrrandi leið
til helvítis niður og leiðin er greið.
Sjávarborð hækkar og síldin hún fer
og siðblindan umvefu guðsvolað sker.

Niður með sílikon, niður með salt,
niður með bankana, niður með allt.
Og á meðan það sekku þá sötra þú skalt
sóda úr víti og viskí og malt.

Kynslóðir lenda í vandanum við
að velta á lappir því sem fór á hlið,
en það getur enginn því þetta er allt dæmt
til að þrukkast til fjandans, afbakað og -skræmt.

Niður með heitt, já og niður með kalt,
niður með hálfvolgt, já niður með allt.
Og á meðan það sekkur þá sötra þú skalt
séniver blandað í romm og kóbalt.

Já, mér finnst ég verða að miðla því strax
sem mig hefur sótt á og leita því lags.
Ég skoðað hef hlutina skýrt og ég tel
að sköpunarverkið það endi ekki vel.

Jöklarnir bráðna og jörðin hún gýs,
í janúar næsta í helvíti frýs.
Öll bjartsýni er óráðshjal, ofmetið þrugl,
því allt er í fokki og komið í rugl.

Niður með stöndugt og niður með valt,
já niður með hvorugt og niður með allt.
Og á meðan það sekku þá sötra þú skalt
bæði sokkið og fljótandi tólfþúsundfalt.

Niður með sílikon, niður með salt,
niður með bankana, niður með allt.
Og á meðan það sekku þá sötra þú skalt
sóda úr víti og viskí og malt.

[af plötunni Ljótu hálfvitarnir – Ljótu hálfvitarnir [4]]