Hringir [1] (1989-2017)

Hringir 1990

Hljómsveitin Hringir (einnig oft nefnd sýrupolkahljómsveitin Hringir) starfaði um nokkurra áratuga skeið frá því á síðustu öld og fram á þessa, og reyndar er ekki alveg ljóst hvort sveitin sé lífs eða liðin. Hún hefur starfað með hléum og þegar þetta er ritað virðist sem hún hafi síðast komið fram opinberlega árið 2017, hins vegar hefur sveitin alltaf verið dugleg að leika í einkasamkvæmum og því gæti verið mun styttra síðan að hún lék síðast. Hringir hafa sent frá sér tvær plötur.

Hljómsveitin mun hafa verið stofnuð árið 1989 en elstu heimildir um hana eru frá árinu 1990 er hún lék á dansleik á Hótel Borg. Meðlimir hennar voru þá þeir Hörður Bragason orgel- og harmonikkuleikari, Eiríkur Stephensen klarinettuleikari, Jón Skuggi Steinþórsson bassaleikari, Kiddi Chrysler [?] og Dóri Dragbítur [?]. Sá sem þarna var kallaður Kiddi Chrysler er hugsanlega Kristinn H. Árnason gítarleikari sem var meðlimur sveitarinnar árið 1991 (og alla tíð síðan þá) en óskað er eftir frekari upplýsingum um það sem og um Dóra Dragbít.

Árið 1991 voru meðlimir sveitarinnar þeir Hörður, Eiríkur, Jón, Kristinn og Kormákur Geirharðsson (Kommi) trommuleikari sem þá var genginn til liðs við sveitina. Sveitin lék ekki oft á þessum árum en hér má nefna uppákomur í tengslum við myndlistarsýningu Hallgríms Helgasonar, Listahátíð í Reykjavík og fyrsta októberfestivalið sem haldið var hérlendis haustið 1992, eftir það virðar Hringir hafa lagst í dvala um nokkurt skeið.

Vorið 1995 virðist sem Hringir hafi verið endurvaktir en hljómsveitin lék þá um sumarið í nokkur skipti á Jazzbarnum, meðlimir sveitarinnar á þeim tímapunkti voru þeir Hörður, Jón, Eiríkur, Kristinn, Kormákur og Einar Jónsson básúnuleikari en á þeim tímapunkti var sveitin fjölmennust – sextett.

Hringir

Það var svo í árslok 1996 sem sveitin fór af stað aftur og nú loksins starfaði hún nokkuð samfleytt af því er virðist, árið 1997 léku þeir félagar t.a.m. á síðdegistónleikum Hins hússins á Ingólfstorgi en þá var sveitin orðin öllu fámennari, tríó þeirra Harðar, Kormáks og Kristins en þremenningarnir hafa myndað kjarna sveitarinnar síðan þá. Tónlist sveitarinnar var á þeim tíma orðið nokkuð fastmótuð, sjálfir skilgreindu þeir hana sem sýrupolkatónlist og á sú skilgreining ágætlega við. Hringir áttu lag á safnplötunni Bandalög 7, sem kom út um sumarið 1997 og lék sveitin töluvert mikið um það leyti og um haustið s.s. á Grandrokk, Ingólfscafé, Vegamótum og Leikhúskjallaranum.

Sveitin sem á þeim tíma gekk einnig undir nafninu Hr. Ingi R. var orðin býsna þekkt stærð í tónlistarlífi höfuðborgarinnar og svo virðist sem sveitin hafi einvörðungu leikið innan borgarmarkanna, reyndar lék sveitin töluvert mikið í einkasamkvæmum s.s. í brúðkaupum og vel getur verið að spilasvæði hennar hafi náð út fyrir þéttasta þéttbýlið. Sveitin kom sumarið 1998 m.a. fram á tónleikum sem haldnir voru í Loftkastalanum en þar leiddu saman hesta sína nokkrar hljómsveitir undir yfirskriftinni Pop í Reykjavík en þá var verið að skjóta samnefnda kvikmynd, og komu Hringir fram í þeirri mynd þegar hún var frumsýnd.

Haustið 1998 kom svo að því að sveitinni barst liðsauki í söngkonunni Möggu Stínu (Margréti Kristínu Blöndal), hún hafði troðið upp með sveitinni á dansleik en var þarna orðin söngkona hennar í tónleikaröð í Kaffileikhúsinu sem bar yfirskriftina 18/28, þar lék sveitin tónlist frá sjöunda áratugnum og var nú í fyrsta sinn með söngvara innanborðs en fram að því höfðu þeir félagar reyndar eitthvað raulað án þess þó að hafa einhvern fastan söngvara. Þetta sama haust lék sveitin í fyrsta sinn á tískusýningu sem fataverslunin Kormákur & Skjöldur hélt í Leikhúskjallaranum en það átti eftir að verða fastur liður hjá sveitinni á haustdögum – Kormákur trommuleikari er annar eigenda verslunarinnar. Sveitin lék svo á áramótadansleik ásamt Milljónamæringunum á Hótel Sögu.

Hringir og Magga Stína

Magga Stína söng með Hringjum næstu misserin og sveitin var töluvert áberandi um það leyti, hún var eftirsótt í partíspilamennsku og þar voru brúðkaup fyrirferðamikil en sveitin lék jafnframt á dansleikjum og tónleikum, m.a. á tónleikum samfylkingarinnar „beint á netinu“ vorið 1999 en það þótt heilmikill viðburður á þeim tíma. Það sama sumar (1999) kom svo út plata með sveitinni en hún bar titilinn Hringir & Magga Stína og hafði að geyma sextán ábreiður úr ýmsum áttum en mestmegnis frá sjöunda áratugnum. Platan sem hafði verið tekin upp í Gróðurhúsinu, hlaut ágæta dóma í Undirtónum, Fókusi og Morgunblaðinu og sveitin fylgdi plötunni eftir með frekari spilamennsku um haustið en fór síðan í pásu um nokkurra mánaða skeið eftir því sem verður best séð, þó með þeim fyrirvara að líklega lék hún sem fyrr í einkasamkvæmum.

Hringir og Magga Stína birtust aftur á nýjan leik síðsumars 2000 þegar sveitin kom fram á Menningarnótt, þá kom sveitin einnig fram á miðnæturmessu í Dómkirkjunni um svipað leyti og lék reyndar víðar um haustið. Í hönd fór tímabil þar sem hljómsveitin lék margoft á dansleikjum í Leikhúskjallaranum og líklega er ekki ofsögum sagt að staðurinn hafi verið heimavöllur sveitarinnar um tíma, m.a.s. lék hún á Eurovision dansleik þar vorið 2001 þar sem fjölmargir gestasöngvarar tróðu upp með sveitinni.

Hringir og Magga Stína

Önnur plata sveitarinnar kom svo út um haustið 2001 en nú brá svo við að þar voru þremenningarnir Hörður, Kormákur og Kristinn einir á ferð. Nýja platan hlaut nafnið Hundadiskó og var gefin út af Fljúgandi diskum, plötuútgáfufyrirtæki Eddu miðlunar og útgáfu en fyrri platan hafði verið gefin út af hljómsveitinni sjálfri undir útgáfunafninu Samtök útvalinna polka aðdáenda (SÚPA). Hundadiskó fékk nokkuð misjafna dóma, í Morgunblaðinu, Sándi og Undirtónum fékk platan góða dóma en slakari í Fókusi. Tólf lög voru á plötunni og flest þeirra voru frumsamin. Hringir léku nokkuð um haustið til að fylgja plötunni eftir, bæði með og án Möggu Stínu – mest í Leikhúskjallaranum en einnig á Airwaves hátíðinni og víðar.

Frá og með árinu 2002 fór heldur minna fyrir Hringjum og Möggu Stínu, sveitin starfaði áfram en var ekki eins áberandi í spilamennskunni og hún hafði verið árin á undan – svo virðist sem sveitin hafi leikið í fáein skipti ár hvert og þá yfirleitt í sérverkefnum á borð við kosningavökur R-listans og vinstri grænna, dansleik í tengslum við Vetrarhátíð í Reykjavík og á styrktar-, minningar- og afmælistónleikum. Eftir 2005 lék sveitin enn sjaldnar en þá helst á styrktartónleikum og slíku, enn var þó fastur liður hjá þeim félögum að leika á tískusýningu Kormáks og Skjaldar en það virðist hafa verið allt til haustsins 2017 – eftir það hefur farið lítið fyrir Hringjum og gæti hún því formlega verið hætt störfum. Þar til annað kemur í ljós.

Efni á plötum