
HIlmar J. Hauksson
Tónlistarmaðurinn Hilmar J. Hauksson kom víða við í tónlist á sínum æviferli en hann lést langt fyrir aldur fram.
Hilmar Jón Hauksson var fæddur í Reykjavík snemma árs 1950, hann hóf snemma að iðka tónlist en var líklega að mestu eða öllu leyti sjálfmenntaður í þeim fræðum. Hilmar var í nokkrum hljómsveitum á menntaskólaárum sínum við Menntaskólann við Hamrahlíð og var í fyrsta útskriftarhópnum þar, meðal hljómsveita hans á þessum árum má nefna hljómsveitina Bassa en hann var einnig í þeim kjarna sem síðar skipuðu Stuðmenn og reyndar var hann töluvert virkur í félagslífi MH-inga á námsárum sínum – þá var hann einnig í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð. Síðar starfaði hann um tíma með þjóðlagatríóinu Hannibölum.
Eftir stúdentspróf menntaði Hilmar sig í sjávarútvegsfræðum auk þess að taka stýrimannapróf (og fór reyndar einnig síðar í frekara nám) og um tíma bjó hann bæði í Grundarfirði og á Húsavík. Á fyrrnefnda staðnum mun hann m.a. hafa kennt á gítar en á Húsavík þar sem hann starfaði sem útibússtjóri fyrir Hafró, var hann m.a. í hljómsveitinni Náttfara.
Hilmar kom aftur suður til Reykjavíkur og hóf að kenna við Fjölbrautaskólann í Breiðholti sem þá var nýtekinn til starfa, þar kenndi hann líffræði og efnafræði allt til dauðadags.

Hilmar Jón Hauksson
Það var á níunda áratugnum sem meira fór að kveða að Hilmari á tónlistarsviðinu. Hann stofnaði þjóðlagasveitina Hrím sem var töluvert áberandi um tíma og sendi frá sér bæði kassettu og plötu þar sem hann var meðal laga- og textahöfunda, sú sveit starfaði á árunum 1981-85 og svo starfrækti hann aðra sveit – Hvísl, sem einnig lagði áherslu á þjóðlagatónlist en báðar sveitirnar léku töluvert á tónlistarhátíðum erlendis og var Hilmar því vel tengdur slíkum hátíðum. Hvísl starfaði allt til ársins 2007 en Hilmar var einnig í skammlífari sveitum eins og Íslenska búsúkí-tríóinu og pöbbasveitinni Babýlon, hann lék um tíma jafnframt á píanó á Reykjavíkurstofunni við Hverfisgötu undir lok aldarinnar.
Hilmar var fjölhæfur tónlistarmaður og lék á ýmis hljóðfæri, hér eru nefnd gítar, hljómborð, búsúkí, harmonikka og þverflauta en hann söng einnig og samdi tónlist og texta eins og fram hefur komið hér að framan. Hann lét einnig ýmis félagsmál tónlistarmanna sig varða og fór m.a. sem fulltrúi Íslands á vegum SATT og FA (Félags alþýðutónskálda) á norræna ráðstefnu NOMUS í Noregi, þá var hann starfsmaður listahátíðar um tíma. Og hann kom reyndar við sögu á ýmsum öðrum menningartengdum sviðum – hann starfaði t.d. um tíma við dagskrárgerð í útvarpi auk þess sem hann skrifaði leikrit og vann við þýðingar, fjölmargar greinar eftir hann birtust enn fremur í dagblöðum.
Hilmar gaf aldrei út sólólplötu en á plötu sem kom út árið 2000 er Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hélt upp á 25 ára afmæli sitt, átti hann tvö lög þar. Hann gaf svo út vorið 2007 plötu í félagi við Sævar Árnason undir nafninu Bra$$, hún bar heitið Stúdentshúfublús en á þeirri plötu sem var þrettán laga, samdi Hilmar öll lög og texta auk þess að leika á flest hljóðfærin og sjá um sönginn. Um það leyti var ljóst hvert stefndi en Hilmar lést þá um sumarið aðeins 57 ára gamall – hann hafði þá átt í veikindum um nokkurra ára skeið og náði að ljúka þessu ætlunarverki sínu en plötuna tileinkaði hann nemendum og starfsfólki Fjölbrautaskólans í Breiðholti.














































