
Unnur Benediktsdóttir Bjarklind – Hulda
Skáldkonan Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (Hulda) samdi fjöldann allan af ljóðum sem samin hafa verið lög við, bæði í hennar samtíma en einkum þó síðar – Hver á sér fegra föðurland og Lindin eru líkast til þekktust þeirra.
Unnur Benediktsdóttir fæddist sumarið 1881 í Laxárdal í Suður-Þingeyjarsýslu og ólst upp á menningarheimili þar sem hún komst í kynni við bókmenntir og hlaut jafnframt tækifæri til að mennta sig þótt það væri ekki sjálfgefið á þeim tíma að konur kæmust til mennta, fyrst á Akureyri og svo í Reykjavík. Hún bjó lengi á Húsavík en var einnig erlendis um tíma, hún flutti svo til Reykjavíkur komin á sextugsaldur og lést þar árið 1946.
Unnur hóf snemma að yrkja og telst í dag vera eitt af megin skáldum nýrómantísku stefnunnar en ljóð þeirra kynslóða hafa orðið mörgum tónskáldum og tónlistarmönnum að lagi. Hún var afkastamikið skáld, sendi frá sér bæði ljóð og sögur en þekktast ljóða hennar er án vafa verðlaunaljóð hennar frá lýðveldishátíðinni 1944, Hver á sér fegra föðurland, sem Emil Thoroddsen samdi lag við en það hefur komið út í ótal útgáfum á plötum, einkum með kórum – þannig hafa t.a.m. Kirkjukór Akraness, Gradualekór Langholtskirkju, Hljómeyki, kvennakórinn Lissý og Skólakór Kársness gert því skil svo fáein dæmi um ólíka kóra séu nefnd.
Þá hefur ljóð hennar Lindin, við lag Eyþórs Stefánssonar komið út á mörgum plötum sem og Ísland, Ísland! Ég vil syngja, við ljóð Sigurðar Þórðarsonar. Þá samdi Sigvaldi Kaldalóns lög við að minnsta kosti tvö ljóða hennar, Barnið og Draumur Bergljótar og Sigfús Einarsson einnig við ljóðið Ég á það heima en þau lög hafa komið út í fleiri en einni útgáfu. Hér má jafnframt nefna ljóðin Farfuglarnir (við lag Elísabetar Jónsdóttur) sem m.a. Ásgerður Júníusdóttir hefur sungið á plötu, Blá blóm, Breyttur söngur, Rökkur, Nú rennur sól, Við fjallavötnin, Yfir hlíðum og Ljáðu mér vængi eru einnig ljóð sem samin hafa verið lög við og komið hafa út á plötum með hinum og þessum flytjendum.














































