Harðkjarnapönksveit sem bar nafnið Hryðjuverk var starfrækt um nokkurra ára skeið snemma á þessari öld en var þó ekki mjög virk.
Hryðjuverk kom fyrst fram á sjónarsviðið haustið 2003 og gæti þá hafa verið tiltölulega nýstofnuð, sveitin lék þá á fáeinum tónleikum m.a. í Hinu húsinu ásamt fleiri sveitum og um svipað leyti sendi hún frá sér sex laga skífu undir heitinu Hryðjuverk? og hélt útgáfutónleika af því tilefni. Árið 2004 kom svo út split-plata sem hún deildi með bresku pönksveitinni Patient zero en sú sveit kom einmitt til landins það sama ár, Hryðjuverk átti þar fjögur af tíu lögum en skífan var gefin út í 500 tölusettum eintökum á grænum sjö tommu vínyl.
Ekki finnast margar heimildir um Hryðjuverk en sveitin var líkast til tríó þeirra Þóris Georgs Jónssonar söngvara og gítarleikara, Vilhelms Vilhelmssonar bassaleikara og Birkis Fjalars Viðarssonar trommuleikara en þeir voru allir virkir í harðkjarnasenunni snemma á öldinni.
Sveitin var hvað virkust veturinn 2003 til 2004 og lék þá á nokkrum tónleikum, m.a. kom hún fram á tónleikum ásamt fleiri harðkjarnasveitum á tónleikum á Grandrokk vorið 2004 en eftir það fór minna fyrir sveitinni – hún lék á Andspyrnuhátíðinni svokölluðu haustið 2005 og svo á tónleikum vorið 2006 en virðist ekki hafa komið fram opinberlega eftir það. Sveitin var þó líklega starfandi allt til ársins 2008 þótt hún hefði þá ekki verið virk á tónleikasviðinu um langt skeið.














































