Húnvetningakórinn í Reykjavík (1966-78)

Húnvetningakórinn árið 1974

Húnvetningakórinn í Reykjavík er einn þriggja kóra sem starfað hafa á höfuðborgarsvæðinu í nafni Húnvetninga en einnig má nefna Söngfélagið Húna (1942-58) og Húnakórinn (1993-2018), þessi kór starfaði hins vegar á árunum 1966 til 78.

Litlar upplýsingar er að finna um Húnvetningakórinn en hann starfaði líkast til innan Húnvetningafélagsins í Reykjavík, í heimild er talað um Húnvetningahátíð í Domus Medica árið 1971 þar sem kórinn söng og að hann hafi þá átt fimm ára afmæli, þar er Þorvaldur Björnsson sagður stjórnandi kórsins og að kórinn hafi sungið nokkuð á elliheimilum og sjúkrahúsum fyrir vistmenn en engar upplýsingar er að finna um hvort Þorvaldur hafi verið stjórnandi kórsins frá upphafi.

Sumarið 1974 söng Húnvetningakórinn á hátíðarhöldum í Húnavatnssýslum en þá var haldið upp á 1100 ára landsnámsafmæli Íslands um land allt, John A. Speight var þá stjórnandi kórsins og hann var það einnig þegar kórinn söng opinberlega 1977. Síðustu heimildir um Húnvetningakórinn í Reykjavík eru frá 1978 en hann virðist eftir það hafa lognast útaf.