Afmælisbörn 2. júní 2025

Álfur Mánason

Fjögur tónlistartengd afmælisbörn koma við sögu á vef Glatkistunnar í dag:

Þorgeir Ástvaldsson mannfræðingur og dagskrárgerðarmaður er fyrsta afmælisbarn dagsins, hann er sjötíu og fimm ára gamall. Hann varð þekktur strax á barnsaldri þegar hann lék með hljómsveitinni Tempó sem hitaði meðal annars upp fyrir bresku sveitina Kinks þegar þeir komu til landsins um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Síðan fór lítið fyrir honum þar til hann söng lagið Ég fer í fríið ásamt Sumargleðinni, í kjölfarið söng hann lagið Úti alla nóttina með Valla og víkingunum og gaf út sólóplötu. Samstarf hans við Magnús Ólafsson, m.a. sem jólasveinar þekkja margir.

Jón Atli Helgason fagnar fjörutíu og fimm ára afmæli sínu á þessum degi. Jón Atli var framan af fyrst og fremst bassaleikari en síðar plötusnúður og raftónlistarmaður, hann hefur starfað með ótal hljómsveitum og hér má nefna sveitir eins og Hairdoctor, Human woman, Fídel, Sexy Lazer og Richter.

Þór Eldon (Jónsson) gítarleikari er sextíu og þriggja ára gamall í dag. Þór þekkja flestir sem gítarleikara Sykurmolanna (Sugarcubes) en hann lék einnig í hljómsveitum eins og Hinu afleita þríhjóli, Hnotubrjótunum, Jazzhljómsveit Konráðs Bé og Unun, auk þess að hafa starfað að tónlist með ljóðskáldum eins og Degi Sigurðarsyni og Diddu (Sigurlaugu Jónsdóttur).

Að síðustu er nefndur pönkarinn Friðrik álfur, Svarti álfur eða Álfur Mánason (eins og hann heitir í þjóðskrá) sem margir þekkja úr Pönksafni Íslands við Bankastræti en hann er fimmtíu og níu ára gamall á þessum degi. Álfur, sem upphaflega kemur frá Belgíu hefur leikið á bassa með hljómsveitum eins og Sjálfsfróun, Hrafnaþingi og Kumli.

Vissir þú að Þorsteinn Eggertsson og Haukur Morthens gáfu út tímaritið Húrra um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar?