Human body orchestra var dúett Ragnhildar Gísladóttur og Jakobs Frímanns Magnússonar auk aðstoðarfólks en sveitin notaði eins og nafn hennar gefur reyndar til kynna líkamann sem hljóðfæri, bæði sem radd- og ásláttarhljóðfæri.
Human body orchestra átti sér reyndar forsögu en það var tríó Ragnhildar, Sverris Guðjónsson og Sigurðar Rúnars Jónssonar (Didda fiðlu) nokkrum árum fyrr sem hafði komið fram á Íslandskynningu í London undir nafninu Human body percussion ensemble, og var þessi nýja sveit byggð á sömu hugmynd að mestu fyrir utan að þau Ragnhildur og Jakob höfðu tekið tæknina í þjónustu sína til að magna upp og breyta búklættinum og -hljóðunum með effektum.
Human body orchestra sendi frá sér plötu árið 1999 sem bar nafnið High north og þar var Ragnhildur fremst í flokki en einnig lögðu Jakob, Egill Ólafsson, Eyþór Gunnarsson og fleiri hljóð á plóginn, jafnframt kom Kór Menntaskólans við Hamrahlíð lítillega við sögu á plötunni undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Platan hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu og tímaritunum Fókusi og Veru en sveitin mun hafa komið eitthvað opinberlega fram undir þessu nafni, Jakob mun þar hvergi hafa verið nærri en trommuleikararnir Gunnlaugur Briem og Arnar Gíslason munu hafa leikið með Ragnhildi. Platan fékk dreifingu á Norðurlöndunum og í Þýskalandi en þar kom hún út árið 2001 í nafni Ragnhildar (Röggu), eitthvað breytt hvað lagaval og -röð snertir – og bar titilinn Human body orchestra. Í kjölfarið opnuðust leiðir fyrir Ragnhildi í Japan í tengslum við plötuna og átti hún t.a.m. eftir að starfa með japanska tónlistarmanninum Stomu Yamash‘ta, og koma fram á tónleikum í Japan í nokkur skipti. Lög af plötunni hafa síðan þá komið út á einhverjum safnplötum en einnig hefur tónlistin m.a. verið notuð í dansverk.














































