
Hvísl
Þjóðlagahljómsveit sem bar nafnið Hvísl starfaði á höfuðborgarsvæðinu um árabil, reyndar með hléum en þessi sveit lék töluvert á pöbbum auk þess að leika á tónlistarhátíðum erlendis.
Það mun hafa verið Hilmar J. Hauksson sem stofnaði sveitina á fyrri hluta ársins 1985 og fékk til liðs við sig Sigurð Inga Ásgeirsson bassaleikara en sá hafði starfað með Hilmari í hljómsveitinni Hrím fáeinum árum áður, aðrir liðsmenn Hvísls voru þeir Karl Hákon Karlsson gítarleikari og söngvari og Geir Gunnlaugsson hljómborðs- og ásláttarleikari sem einnig söng en sjálfur lék Hilmar mest á gítar auk þess að syngja – hann lék þó einnig á ýmis önnur hljóðfæri s.s. búsúkí, þverflautu, harmonikku, munnhörpu og fleira. Hvísl var mest alla tíð skipuð sama mannskap, þeim Hilmari, Karli, Geir og Sigurði en á árunum 1988 til 1992 að minnsta kosti kom Kjartan Baldursson bassaleikari inn í sveitina þegar Sigurður átti ekki heimangengt.
Hvísl hafði verið stofnuð í því skyni að leika fyrir erlenda ferðamenn og því hafði sveitin á takteinum ýmsa blandaða tónlist héðan og þaðan s.s. frá Grikkalandi, Skotlandi, Írlandi, Bandaríkjunum og auðvitað Íslandi en þjóðlagakennd tónlist var megin uppistaðan í því, einnig léku þeir félagar frumsamda tónlist sem að mestu var eftir Hilmar.
Sveitin lék mestmegnis á pöbbum s.s. Fógetanum, Duus og Risinu við Hverfisgötu en einnig heilmikið á samkomum hjá fólki vinstri kantinum s.s. hjá MÍR og alþýðubandalaginu. Smám saman færðu þeir sig svo einnig yfir á árshátíðamarkaðinn og léku um tíma mikið í Vestmannaeyjum, síðar voru Ölver í Glæsibæ, Bjórhöllin við Grensásveg og Sportbarinn við Borgartún vettvangur spilamennsku sveitarinnar.
Hvísl starfaði með hléum sem fyrr segir, framan af nokkuð samfleytt en síðar með hléum, árið 1988 lék sveitin í fyrsta sinn á erlendum vettvangi þegar hún kom fram á þjóðlagahátíð í Glasgow í Skotlandi en svo átti hún eftir að leika á hátíðum í Paimpol (tvívegis) og Brest í Frakklandi og einnig á hátíð í Þýskalandi. Tvö lög með sveitinni komu út á safnkassettunni Fete du chant de marin: Paimpol, árið 1989 en ekki liggja fyrir upplýsingar um fleiri slíkar safnútgáfur þar sem sveitin kom við sögu – a.á.m. virðist sem Hvísl hafi sjálf sent frá sér safnkassettu sem bar nafnið Ísland, óskað er eftir staðfestingu og frekari upplýsingum um þá útgáfu.
Hvísl starfaði að nafninu til allt til ársins 2007 en þá um sumarið lést Hilmar eftir veikindi, sveitin hafði þá í raun ekki starfað um tíma eða frá árinu 1992 en þó komið reglulega saman og leikið við hátíðleg tækifæri. Hugmyndin hafði m.a. verið að halda upp á 20 ára afmæli sveitarinnar árið 2005 en því varð ekki við komið vegna veikinda Hilmars, sveitin kom þó fram vorið 2007 og reyndist það síðasta skiptið.














































