Að leiðarlokum

Glatkistan hefur nú verið aðgengileg á veraldarvefnum í rúmlega áratug og hefur hlotið töluverða athygli eftir því sem gagnagrunnur vefsíðunnar (um 6000 greinar) hefur stækkað, síðuna heimsækja nú í hverjum mánuði um 30 þúsund gestir að jafnaði. Þrátt fyrir það hafa auglýsendur ekki sýnt síðunni áhuga og styrki frá hinu opinbera má telja á fingrum annarrar handar, fáeinir einstaklingar hafa þó styrkt framtakið með frjálsum framlögum.

Því er komið að lokakaflanum, tilraun til að fá Landsbókasafn og ráðuneyti menningarmála í einhvers konar samstarf hefur ekki gengið eftir, og því er lítið annað að gera en að „loka sjoppunni“ sem er pínu sorglegt þar sem hér er um að ræða stærsta gagnagrunn sem til er um íslenska tónlist. Vonandi verður Glatkistan þó aðgengileg eitthvað áfram komi inn framlög til að greiða fyrir lén og hýsingu en líklega verður frá og með þessum tímapunkti ekki bætt við efni síðunnar (fyrir utan það efni sem nú þegar liggur tilbúið til birtingar) – nema auðvitað eitthvað stórkostlegt gerist.

Það stoðar lítið að gráta þótt efnið (og það sem liggur eftir hálf- og óunnið) hverfi nú „í glatkistuna“ en ég vil þess í stað þakka þeim fjölmörgu sem hafa lagt lið við efnisöflun, ábendingar, leiðréttingar, myndefni og annað, og þeim lesendum sem hafa heimsótt vefinn og nýtt sér hann til fróðleiks, í námi eða til skemmtunar. Ég fer sáttur frá borði og get eytt frímtíma mínum í önnur hugðarefni.

Takk fyrir mig,
Helgi J.