Þann 27. september næstkomandi snúa Pálmi Gunnarsson og Hipsumhaps bökum saman með tónleikum í Norðurljósasal Hörpu. Þeir hafa sett saman frábæran lagalista með lögum úr smiðju hvors annars sem mun ekki skilja neinn ósnortinn en tónleikarnir eru hluti af tónleikaseríunni …& Hipsumhaps þar sem tvær kynslóðir mætast í tónum og tali.
„Árið 1996 kom stórlaxinn Pálmi Gunnarsson í veiðihús við Selá á Vopnafirði. Þessi sanni alþýðumaður sá sér fært milli holla að skutla syni kokksins í sund. Nú, tæpum 30 árum síðar, stíga þeir saman á svið. Stórlaxinn og sonur kokksins.“ (Fannsi, Hipsumhaps)
Tónleikaserían …& Hipsumhaps hófst með vel heppnuðum tónleikum Hipsumhaps og Bjartmars Guðlaugssonar í Bæjarbíói í vor, og áfram verður haldið með Ellen Kristjánsdóttur á Kaffi Flóru og Ragnhildi Gísladóttur í Austurbæjarbíói síðar á árinu.
„Þetta fór ótrúlega vel af stað með Bjartmari í Bæjarbíói. Svo vel raunar að við Bjartmar hittumst reglulega í kaffi þar sem við greinum samtímann og tilveruna. Ómetanleg vinátta. Það sem ég er einna ánægðastur með varðandi þessa tónleikaseríu er hvernig hún brúar kynslóðir. Þetta er geggjað tækifæri fyrir fólk á mínum aldri að skella sér á tónleika með foreldrum sínum, fyrir eina kynslóð að kynnast tónlist hinnar“, sagði Fannar að lokum.
Hljómsveit kvöldsins skipa þeir:
Pálmi Gunnarsson – söngur og bassi
Fannar Ingi Friðþjófsson – söngur og gítar
Bergur Einar Dagbjartsson – trommur
Kristinn Þór Óskarsson – gítar
Ólafur Alexander Ólafsson – bassi og gítar
Tómas Jónsson – hljómborð
Tumi Árnason – saxófónn
Ekki láta þessa einstöku kvöldstund framhjá þér fara. Tryggðu þér miða strax í dag á Tix.is.














































