Hvítárbakkatríóið (1974-76)

The White Bachman trio ásamt vegfarendum

Hvítárbakkatríóið var hljómsveit Jakobs Frímanns Magnússonar sem starfaði um eins árs skeið, sveitin var líklega aldrei hugsað sem annað en hliðarverkefni – reyndar eitt af fjölmörgum slíkum sem Jakob kom að um miðjan áttunda áratuginn.

Hvítárbakkatríóið sem gekk einnig undir enska heitinu The White Bachman trio, var starfrækt í Bretlandi og var að öðru leyti skipuð Bretum og Skota en fleiri Íslendingar komu reyndar við sögu sveitarinnar.

Jakob hafði starfað sem hljómborðsleikari í nokkrum hljómsveitum í Bretlandi frá því um vorið 1973, m.a. hljómsveit Long John Baldry en þar var einnig Alan Murphy gítarleikari sem gekk til liðs við Jakob – þriðji liðsmaðurinn var trommuleikarinn Preston Ross Heyman og svo skoski bassaleikarinn John Giblin sá fjórði, á þessari upptalningu sést reyndar að tríóið var kvartett. Ekki er alveg ljóst hvort þeir voru með Jakobi í upphafi en hugsanlega voru Tómas M. Tómasson bassaleikari og Sigurður Karlsson trommuleikari í upprunalegu útgáfu sveitarinnr, þ.e. áður en hún hlaut nafn sitt.

Líklega var sveitin sett saman síðla árs 1974 í London því að í upphafi árs 1975 hljóðrituðu þeir félagar tvö lög (Moving on / Where were you?). Þarna hafði sveitin ekki hlotið nafn en það gerðist um vorið, þá má segja að Majestic stúdíóið í London hafi verið eins konar Íslendinganýlenda – hljómsveitin Change hafði þá verið starfandi í borginni og þangað voru einnig komnir nokkrir Íslendingar til að taka upp plötuna Sumar á Sýrlandi með Jakob og Valgeir Guðjónsson í broddi fylkingar. Jakob starfrækti þá einnig aðra sveit sem upphaflega átti að heita The White River band (fékk síðan nafnið The River band) en einhverjir Stuðmannanna voru að grínast með það nafn og þá kom upp nafnið The White Bachman trio, sem var þá um leið vísun til Hvítárbakka í Borgarfirði en þangað átti Jakob að rekja ættir sínar – Jakob greip það á lofti og sveitin hlaut þar með nafn sitt sem ýmist var notað á ensku eða íslensku.

Hvítárbakkatríóið og söngkonurnar tvær

Í þessari upptökutörn voru tvö önnur lög tekin upp í nafni sveitarinnar, það voru lögin New morning (e. Bob Dylan) og All hands on deck sem samið var af Sigurði Bjólu, sem þarna var einn af Stuðmannagenginu. Og reyndar komu Tómas bassaleikari og Sigurður trommuleikari einnig við sögu í upptökunum, svo ekki sé minnst á hlut þeirra Björgvins Halldórssonar, Gunnars Þórðarsonar og Birgis Hrafnssonar sem léðu tónlistinni bakraddir. Hafi þeir Tómas og Sigurður verið í upphaflegu útgáfu Hvítárbakkatríósins þá voru Bretarnir líklega að taka við af þeim á þeim tímapunkti.

Hvítárbakkatríóið hafði planað að leika á tónleikum í Bretlandi um sumarið en þegar Stuðmannaæði brast á hér heima á Íslandi í kjölfar útgáfu Sumars á Sýrlandi, þurfti að fylgja því eftir með dansleikjahaldi og því fór Jakob ásamt The River band yfir hafið í fræga Íslandsferð um og eftir hvítasunnuna þar sem Stuðmenn komu í fyrsta sinn fram – óæfðir með öllu. Lítið varð því úr tónleikahaldi Hvítárbakkatríósins en þegar blásið var til þriggja vikna Stuðmannareisu aftur síðsumars, voru þeir Hvítárbakka-liðar með í för og höfðu þá með sér tvær söngkonur í bakröddum – Stellinu McCarthy og Lorenzu Johnson. Þessi Stuðmannatúr var jafnvel enn skrautlegri en sá fyrri því skipulagið var ekki upp á marga fiska, og einhverjir urðu ósáttir þegar auglýstir skemmtikraftar voru þar hvergi nærri – þarna var ferðast um norðan- og austanvert landið (Skjólbrekku, Valaskjálf og víðar) en einnig spilað í Reykjavík og nágrenni í Festi í Grindavík, á Hótel Sögu, Tónabæ og Tjarnarbúð. Söngkonurnar tvær vöktu mikla athygli en þá sérstaklega fyrir litarhátt sinn en þær voru þeldökkar, og var það eitt og sér jafnvel fréttaefni og jafnvel aðal aðdráttarafl ballgesta.

Hvítárbakkatríóið

Smáskífan sem hljóðrituð hafði verið um vorið, var nú komin út og fékk hvarvetna góðar viðtökur hér á landi, gagnrýnendur höfðu á orði að útgáfan af Dylan laginu (New morning) bæri nokkurn keim af Tætum og tryllum sem þá hafði orðið mjög vinsælt um sumarið en hitt lagið (All hands on deck e. Sigurð Bjólu) þótti þó almennt mun betra lag – sá ópus átti svo eftir að koma út á Götuskóm Spilverks þjóðanna ári síðar undir nafninu Í skóm af Wennerbóm. Þannig má segja að Hvítárbakkatríóið hafi á sinn hátt verið hluti af sögu Stuðmanna og Spilverksins. Hin lögin tvö sem höfðu verið hljóðrituð í upphafi árs, komu aldrei út á smáskífu en birtust hins vegar á safnplötunni Hrif 2, árið 1976.

Eftir Íslandsferðina hélt sveitin til Bandaríkjanna en söngkonurnar tvær urðu reyndar eftir hér á landi um tíma og komu m.a. fram með Paradís. Jakob hafði tekið að sér að annast upptökustjórn á plötu ísfirsku hljómsveitarinnar Ýr í New York og þar dvaldist sveitin um tíma og lék þá einnig á klúbbum í borginni og nágrenni hennar en komu einnig við sögu í upptökunum á plötu Ýrar. Að dvölinni í New York lokinni keyptu þeir félagar bíl og fóru á honum þvert yfir Bandaríkin til vesturstrandarinnar og hljóðrituðu grunna að sex lögum sem flest voru eftir Jakob, platan var þó aldrei fullkláruð en á einhverjum tímapunkti kom fram í viðtali við Jakob að sungið yrði á íslensku í þeim. Sveitin starfaði eitthvað fram á næsta ár, 1976 og komu þeir Giblin og Ross Heyman við sögu á sólóplötu Jakobs – Horft í roðann, sem kom út það ár. Og reyndar áttu þeir eftir að koma við sögu á fleiri plötum Jakobs, Stuðmanna og Strax síðar. Ross Heyman átti jafnframt eftir að starfa með Tom Robinson band og hljómsveit Kate Bush, og Giblin einnig með þeirri síðarnefndu.

Lögin fjögur sem komu út á vínylplötum á sínum tíma hafa aldrei verið endurútgefin á stafrænu formi, og eru því illfáanleg í dag.

Efni á plötum