Afmælisbörn 26. júlí 2025

Heiða Ólafs

Sex afmælisbörn eru á listanum í dag hjá Glatkistunni:

Sigríður María Beinteinsdóttir söngkona er sextíu og þriggja ára í dag. Hún vakti fyrst athygli fyrir sönghæfileika sína með HLH flokknum og með hljómsveitinni Kikk en varð með tímanum ein af ástsælustu söngkonum þjóðarinnar, einkum í kjölfar þess að hún tók þátt fyrir hönd Íslands í Eurovision keppninni 1990 ásamt þáverandi hljómsveit sinni, Stjórninni, og lenti í fjórða sæti. Sigga hefur gefið út nokkrar sóló- og safnplötur, og starfað með flestum af stærstu tónlistarmönnum landsins bæði á plötum og á sviði.

Einnig á Hvergerðingurinn Sævar Þór Helgason skólastjóri og gítarleikari Á móti sól afmæli í dag en hann er fimmtíu og tveggja ára gamall. Hann hefur leikið með Á móti sól síðan 1998 en hefur einnig komið við sögu fjölda annarra sveita í Árnessýslu. Meðal þeirra má nefna Riff Reddhedd, Dansband Einars Bárðarsonar, Ljósmund og jafnvel Sólstrandargæjana sem hann lék með um tíma.

Þá er gítarleikarinn Gunnar Óskarsson fimmtugur í dag og fagnar því stórafmæli en hann lék hér fyrrum með hljómsveitum eins og Stjörnukisa, Clockwork diabolus, Xerox og Pulsunni, hann kom þar af leiðandi við sögu á plötum fyrst nefndu sveitarinnar hér að framan.

Gunnar Gunnarsson hljómborðsleikari er sextíu og fjögurra ára gamall á þessum degi. Gunnar kemur upphaflega frá Akureyri og lék þar með danshljómsveitum á yngri árum eins og Hljómsveit Finns Eydal og Jamaica, hann fór svo suður til Reykjavíkur til náms í tónlistarfræðum þar sem hann hefur búið síðan og starfað við tónlist. Gunnar hefur gefið út sólóplötur og leikið inn á fjölda platna auk annarra tónlistartengdra starfa.

Ari Baldursson tónlistarmaður frá Akureyri er sextíu og sex ára í dag. Hann hefur leikið á hljómborð og sungið með fjölmörgum hljómsveitum og hér má nefna Hermenn hugans, París, Helenu fögru, Gallerí og Jón forseta en hann hefur einnig sent frá sér efni í eigin nafni, bæði breiðskífur og smáskífur.

Að síðustu er hér nefnd leik-, fjölmiðla- og tónlistarkonan Aðalheiður Ólafsdóttir (Heiða Ólafs) sem margir þekkja úr Eurovision undankeppnum, Frostrósum, Idolinu og hljómsveitinni Url en hún hefur jafnframt sent frá sér sólóefni á plötum, m.a. frumsamið. Þá hefur hún sungið á fjölmörgum plötum annarra listamanna og plötum tengdum leikhúsinu. Heiða fagnar fjörutíu og fjögurra ára  afmæli á þessum degi.

Vissir þú að hljómsveitin Sullaveiki bandormurinn starfaði undir lok síðustu aldar?