Hæfileikakeppni Íslands [tónlistarviðburður] (2012)

Hæfileikakeppni Íslands

Svokölluð Hæfileikakeppni Íslands var haldin fyrri hluta ársins 2012 á vegum sjónvarpsstöðvarinnar Skjáseins, þar kenndi ýmissa grasa og tónlistaratriði voru fyrirferðamikil en það var þó dansatriði sem bar sigur úr býtum.

Það voru Skjáreinn, Mbl.is og Saga film sem héldu utan um Hæfileikakeppni Íslands en fyrirkomulag keppninnar var með þeim hætti að fólk gat sent inn myndbönd sem öll voru birt á Mbl.is, þar gat fólk gefið myndböndunum meðmæli og þau fjögur sem fengu flest slík fór sjálfkrafa inn í undanúrslit en þriggja manna dómnefnd skipuð Önnu Svövu Knútsdóttur, Þorvaldi Davíð Kristjánssyni og Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, valdi sjötíu og sex önnur myndbönd svo áttatíu slík voru valin til að keppa á sviði fyrir framan dómnefnd og áhorfendur. Alls bárust á sjöunda hundrað myndbanda í keppnina.

Undanúrslit Hæfileikakeppni Íslands fóru fram í fjórum þáttum um vorið og voru fimm atriði af hverjum tuttugu í hverjum þætti kosin áfram með símakosningu í úrslitaþáttinn en í honum kepptu átján atriði um sigurinn þar sem vægi símakosningar og dómnefndar var til helminga – í úrslitaþættinum var Bubbi Morthens gestadómari en Sólmundur Hólm var kynnir þáttanna.

Flest atriðanna voru tónlistarlegs eðlis sem fyrr segir en einnig voru atriði sem höfðu að geyma töfrabrögð, dans og fleira en það var einmitt atriði dansparsins Söru Lindar Guðnadóttur og Elvars Kristins Gapunay sem sigraði keppnina og hlutu þau eina milljón króna í verðlaun og nafnbótina Hæfileikaríkustu Íslendingarnir, þau voru tíu ára gömul en flestir keppendanna voru fremur ungir að árum. Meðal þátttakenda í Hæfileikakeppni Íslands er að finna nokkuð af tónlistarfólki sem síðar hefur orðið þekkt á því sviði og má sjálfsagt þakka keppninni það að einhverju leyti, hér má nefna hljómsveitina Meistara dauðans, sönghópinn Mr. Norrington og einstaklinga eins og Jóhannes Pétursson (JóaPé), Marlon og Rubin Pollock