Afmælisbörn 2. ágúst 2025

Mist Þorkelsdóttir

Í dag koma þrjú tónlistartengd afmælisbörn við sögu á skrá Glatkistunnar:

Hlynur Aðils Vilmarsson tónlistarmaður er fjörutíu og níu ára gamall á þessum degi. Hlynur starfaði með ungsveitum á borð við No comment og Strigaskóm nr. 42 hér áður en hann fór í tónsmíðanám en hann hefur unnið til og verið tilnefndur til ýmissa verðlauna fyrir tónverk sín. Aðrar sveitir sem hann hefur unnið með er eru m.a. Trabant, Vinir Saddams, Fallega gulrótin, Njúton (Atonal future / Aton) og Olympia.

Mist (Barbara) Þorkelsdóttir – annað tónskáld á einnig afmæli í dag en hún er sextíu fimm ára gömul. Hún nam bæði píanó- og semalleik áður en hún fór í tónsmíðanám til Bandaríkjanna. Verk hennar og sönglög má m.a. finna á plötum Tinnu Þorsteinsdóttur, Laufeyjar Sigurðardóttur & Elísabetar Waage, Ásgerðar Júníusdóttur, Sigurbjörns Bernharðssonar & James Howsmon og Arnar Magnússonar. Hún hefur einnig starfað við LHÍ og að félagsmálum tónlistarmanna.

Og að síðustu er hér nefndur bassaleikarinn Þórir Gunnarsson frá Selfossi en hann er fimmtíu og sex ára gamall á þessum degi. Þórir er þekktastur fyrir að plokka bassann með hljómsveitinni Á móti sól á ótal dansleikjum og plötum en hann hefur í gegnum tíðina einnig starfað með sveitum eins og Nonna og mönnunum, Trinity, Pass og Tomma rótara.