
Hvar er Mjallhvít?
Hljómsveitin Hvar er Mjallhvít starfaði í um áratug fyrr á þessari öld, sveitin var ekki áberandi en átti sér fastan aðdáendakjarna sem m.a. sótti jólaböll fatlaðra og það var fastur liður hjá henni að leika þar fyrir dansi. Sveitin sendi frá sér eina plötu.
Hljómsveitin Hvar er Mjallhvít? var stofnuð haustið 2004 og var að mestu skipuð Árbæingum á unga aldri en meðlimir sveitarinnar voru líklega frá upphafi þeir Sigmar Þór Matthíasson bassaleikari, Þorleifur Einarsson söngvari og gítarleikari, Helgi Reynir Jónsson söngvari og gítarleikari og Gunnar Leó Pálsson trommuleikari, þeir félagar voru þá á aldrinum 14 til 17 ára gamlir. Jóhann Schram Reed hljómborðsleikari var einnig viðloðandi sveitina en var aldrei fastur liðsmaður hennar.
Eitt allra fyrsta verkefni þeirra félaga var að leika á árlegum jóladansleik fyrir fatlaða sem söngvarinn André Bachmann stóð fyrir á Hilton Hóteli en sveitin átti eftir að vera fastur liður í þeirri dagskrá allan þann tíma sem hún starfaði, André tók lagið með sveitinni stöku sinnum sem og þekktir tónlistarmenn eins og Laddi, Eyþór Ingi og Rúnar Júlíusson en með þeim síðast nefnda tókust ágæt kynni með sveitinni og þeir fengu inni í hljóðveri hans í Keflavík þar sem þeir hljóðrituðu plötu sumarið 2007, sveitin hafði þá einnig leikið á Ljósanótt í Keflavík fyrir hans tilstilli.

Hvar er Mjallhvít? 2008
Fleiri föst verkefni biðu sveitarinnar því einnig lék Hvar er Mjallhvít? margsinnis á dansleikjum í tengslum við æskulýðsfélög kirkjunnar, m.a. á landsmótum og á Sælumótum í Vatnaskógi um verslunarmannahelgar. Tengt því átti sveitin einnig eftir að leika í guðþjónustu að minnsta kosti einu sinni og reyndar komu þeir félagar margsinnis fram tengdu góðu málefni, m.a. á lokaballi sumarbúða fatlaðra í Reykjadal, á styrktartónleikum fyrir Tónlistarsafn Jóns Kr. Ólafssonar á Bíldudal og víðar.
Plata sveitarinnar, sem hljóðrituð var sumarið 2007 kom út síðla sumars 2008 og hefði varla geta komið út á verri tíma því að þegar til stóð að halda útgáfutónleika af því tilefni í Iðnó í október þurfti að færa tónleikana til með nánast engum fyrirvara því Iðnó var notað undir blaðamannafundi stjórnvalda í tengslum við bankahrunið og kreppuna sem skall á þjóðina á sama tíma, þ.a.l. fékk sveitin afar litla athygli út á plötuna og tónleikana.
Á útgáfutónleikunum sem haldnir voru í Ráðhúsi Reykjavíkur-borgar í staðinn tók Rúnar Júl. lagið með sveitinni. Platan, sem var samnefnd sveitinni, var tíu laga og hlaut þokkalega dóma í Fréttablaðinu en af framangreindum ástæðum hvarf hún eðlilega í skuggann vegna hrunástandsins.

Hvar er Mjallhvít?
Hvar er Mjallhvít? var þó hvergi af baki dottin og sveitin lék víða í kjölfar útgáfu plötunnar, og færði sig reyndar töluvert út á almenna ballmarkaðinn og gerði út á árshátíðabransann. Þannig lék hún töluvert á árshátíðum, þorrablótum og skólaböllum bæði á höfuðborgarsvæðinu og einnig úti á landsbyggðinni en lék þess á milli á stöðum eins og Dubliners, Celtic Cross, Hressó og Rósenberg. Þess má einnig geta að hljómsveitin lék á dansleik sem haldinn var til minningar um Rúnar Júl. á Kringlukránni haustið 2010 en hann hafði látist haustið 2008. Sveitin vann um tíma að nýju efni ætlað til útgáfu en það var aldrei gefið út.
Hvar er Mjallhvít? starfaði til haustsins 2013 en Sigmar bassaleikari fór þá utan í tónlistarnám, sveitin hefur líklega ekki komið saman síðan þá. Meðlimir sveitarinnar hafa flestir fengist nokkuð við tónlist eftir að hún hætti störfum.

