
Högni og kattabandið
Hljómsveit sem bar nafnið Högni og kattabandið var sett saman sérstaklega til að leika á Heimilissýningunni sem haldin var í Laugardalnum í Reykjavík síðsumars 1980 en þar lék sveitin daglega meðan á sýningunni stóð. Tilgangurinn með stofnun og leik sveitarinnar þar var að kynna nýjan lið í útgáfu Morgunblaðsins sem var auka myndasögublað sem kom út með blaðinu einu sinni í viku (á föstudögum) en þar mátti finna myndasögur með Jötninum ógurlega (Hulk), Ofurmenninu (Superman), Hermanni, Smáfólki (Peanuts) og fleiri þekktum persónum, auk auðvitað Högna hrekkvísa sem nafn sveitarinnar vísar til en sá Högni hafði þá reyndar verið daglegur gestur í blaðinu um árabil.
Ekki liggur fyrir hverjir skipuðu Högna og kattabandið en dulnefni þeirra voru Högni hrekkvísi, Sonja, fisksalinn og flækingskötturinn sem öll voru persónur úr myndasögunum um Högna hrekkvísa.
Óskað er eftir frekari upplýsingum um meðlimi Högna og kattabandsins.














































