Hypno (2009-14)

Hypno – Kári Guðmundsson

Tónlistarmaðurinn Kári Guðmundsson samdi og sendi frá sér tónlist um nokkurra ára skeið fyrr á þessari öld undir nafninu Hypno.

Tónlist Hypno var svokölluð dubstep hip hop tónlist en hann hafði verið að semja tónlist í nokkur ár árið 2009 þegar hann kom fyrst fram undir þessu nafni aðeins sextán ára gamall. Þá um sumarið lék hann m.a. á Coxbutter og Weirdcore tónlistarkvöldum á Jacobsen, Prikinu, Zimsen og víðar, og svo á tónlistarhátíðunum Réttir og Iceland Airwaves um haustið. Um það leyti kom út fyrsta smáskífa Hypno (Hypnidubs) á vegum Haunted audio recordings í Bandaríkjunum en einnig sendi hann frá sér efni á Soundcloud.

Hypno hélt áfram að gefa út tónlist og á næstu árum komu að minnsta kosti fjórar smáskífur út til viðbótar með honum undir því nafni, í Bretlandi og Danmörku. Jafnframt komu út lög með honum á safnplötum auk þess sem hann vann við endurhljóðblandanir fyrir tónlistarfólk og sveitir eins og Snooze infinity, Worm is green, Moff & Tarkin, Futuregrapher o.fl. Hann kom einnig áfram fram á uppákomum s.s. Breakbeat kvöldum, Iceland Airwaves og LungA, auk annarra.

Í kringum 2014 hóf Kári að búa til tónlist undir nafninu Hidden people og þá mun hann hafa lagt Hypno-nafninu að mestu leyti.

Efni á plötum