Afmælisbörn 18. ágúst 2025

Salómon Heiðar

Afmælisbörn dagsins eru fimm talsins að þessu sinni:

Haraldur Leví Gunnarsson trommuleikari og plötuútgefandi er þrjátíu og átta ára gamall á þessum degi en hann var þekktur sem trommuleikari hljómsveitanna Lödu sport og Lifun áður en hann stofnaði plötuútgáfuna Record record haustið 2007. Sú útgáfa lifir í dag góðu lífi og gefur út margar af frambærilegustu tónlistarmönnum landsins s.s. Júlíus Meyvant, Of monsters and men, Amabadama og Agent fresco.

Kristján Edelstein gítarleikari frá Akureyri á sextíu og þriggja ára afmæli í dag. Kristján sem hefur mestmegnis starfað við hljóðupptökur síðustu áratugina og þ.a.l. leikið inn á fjölda platna, hefur þó leikið með ógrynni hljómsveita frá unga aldri, hér eru nokkur dæmi: Járnkarlarnir, Puppets, Skriðjöklar, Fire, Start, Út að skjóta hippa, Zikk zakk, Alvaran, Chaplin, Berserkir, PKK, Góðkunningjar lögreglunnar og Rokksveit Fúsa Óttars.

Þá á einnig afmæli á þessum annars ágæta degi tónlistarnördið Gestur Baldursson sem flestir kenna við Lucky records en hann er fimmtíu og eins árs gamall. Gestur er flestum fróðari um íslenska tónlist og tónlistarútgáfu en kassettur eru hans sérgrein ef svo mætti að orði komast.

Söngkonan Linda Walker eða Linda Christine Walker Bollom Björnsdóttir, fagnar sjötíu og fimm ára afmæli sínu í dag. Linda var nokkuð áberandi á áttunda áratug liðinnar aldar og söng þá m.a. með sveitum eins og Orion, Sextett Árna Scheving, Stælum, Tríói Guðmundar Steingrímssonar, Carnival, The Incredibles, Metal og Blúsbroti auk þess að hafa sungið inn á nokkrar plötur. Þá hefur hún einnig komið fram ásamt systur sinni Janis Carol undir nafninu Fjarðarsystur.

Einnig er hér nefndur tónskáldið Salómon Heiðar (1889-1957) en hann var einnig organisti og kórstjórnandi. Hann var til að mynda organisti og stjórnandi Kórs Aðventkirkjunnar um árabil, einn af stofnendum Karlakórsins Þrasta í Hafnarfirði og starfaði einnig fyrir Karlakór Reykjavíkur.