Hörn Hrafnsdóttir (1972-)

Hörn Hrafnsdóttir

Mezzósópran söngkonan og vatnsauðlindarverkfræðingurinn Hörn Hrafnsdóttir hefur á undanförnum áratugum birst við hin og þessi tónlistarverkefni en hún hefur til að mynda stofnað til tónlistarhópa, sungið á tónleikum og fleira.

Hörn Hrafnsdóttir er fædd haustið 1972 í Kópavogi en hún hefur mest alla tíð alið manninn þar. Hún byrjaði ung að árum að syngja enda komin af söngfólki, báðir foreldrar hennar eru söngfólk og afi hennar var Einar Sturluson þekktur tenórsöngvari en hann kenndi henni reyndar í söngnum um tíma. Hörn var barn að aldri í Skólakór Kársness og söng m.a. einsöng á plötu kórsins – Hringja klukkurnar í kvöld, sem kom út árið 1987. Hún nam við Tónlistarskólann í Kópavogi, fyrst á blokkflautu og píanó en síðan lærði hún söng og lauk svo áttunda stigi við Söngskólann í Reykjavík þar sem hún naut m.a. kennslu Elínar Óskar Óskarsdóttur. Auk þess sótti hún söngnámskeið hjá Eugeniu Ratti og Anthony Hose, og Svanhvíti Egilsdóttur í Austurríki, og hefur einnig sótt slík námskeið í Bretlandi og Skotlandi.

Að loknu námi við Söngskólann í Reykjavík 1993 hóf Hörn að koma fram á tónleikum og hefur gert nokkuð af því bæði hér heima og erlendis. Hún hefur til að mynda töluvert oft sungið á hádegistónleikum Íslensku óperunnar og Hafnarborgar, haldið sjálfstæða ljóðatónleika ásamt undirleikurum (oft Antoníu Hevesi og Evu Þyri Hilmardóttur sem hún hefur mikið starfað með) í Salnum í Kópavogi, Háteigskirkju, Hannesarholti og víðar, og svo má nefna hina ýmsu jóla- og aðventutónleika, guðþjónustur o.fl.

Árið 2008 söng Hörn á ljóðatónleikum í Salnum þar sem hún flutti m.a. lög Gunnars Reynis Sveinssonar við ljóð föður hennar, Hrafns Harðarsonar – hugmynd Harnar var að gefa út plötu með verkunum í samráði við tónskáldið en Gunnar Reynir féll frá um það leyti og var henni þá slegið á frest.

Einnig hefur Hörn sungið einsöng með kórum á hinum ýmsu tónleikum í gegnum árin, hér má nefna Þjóðleikhúskórinn, Kammerkór Vesturlands, Söngsveit Hafnarfjarðar og Óperukór Hafnarfjarðar. Þá hefur hún einnig sungið óperuhlutverk í uppfærslum á Sour Angelica (e. Puccini), Cavalleria Rusticana (e. Mascagni), Eugene Onegin (e. Tchaikovsky) og Aidu (e. Verdi) í Íslensku óperunni og víðar.

Þess má svo geta að Hörn var valin til að keppa í söngvarakeppni sem ber nafnið Barry Alexander International Vocal Competition, og í því samhengi söng hún tvívegis í Carnegie hall í New York í Bandaríkjunum árið 2008. Í kjölfar þess var henni einnig boðið að taka þátt í tíu daga tónlistarhátíð í Tolentino á Ítalíu.

Árið 2004 hafði Hörn stofnað söngtríóið Sopranos sem söng töluvert á tónleikum og við hin ýmsu tækifæri næstu árin á eftir, og einnig var hún meðal stofnmeðlima ÓP-hópsins svokallaða árið 2009 og í forsvari fyrir hann um tíma en það var hópur ungra söngvara sem þóttu eiga fullt erindi á markaðinn en skorti verkefni – ÓP-hópurinn kom að fjölmörgum tónlistarviðburðum bæði minni og stærri m.a. í samstarfi við Íslensku óperuna en einnig einn og sér, hér heima og erlendis.

Hörn hefur ekki verið eins áberandi síðustu árin í söngnum en hún er vatnsauðlindaverkfræðingur að mennt og aðjúnkt við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, og þar hafa verkefnin verið ærin. Hún syngur þó enn stöku sinnum á tónleikum.