
Höskuldur Höskuldsson
Höskuldur Höskuldsson (f. 1965) er nokkuð þekkt nafn innan útgáfubransans í íslenskri tónlist en hann starfaði um árabil sem kynningafulltrúi og útgáfustjóri hjá Steinum, Spori og Senu – eftir að hann hætti hjá Senu árið 2015 gaf hann einnig út fáeinar plötur undir eigin merki, HH hljómplötur. Hann hefur síðustu árin starfað í bókaútgáfubransanum en er einnig þekktur fyrir að halda utan um KR-útvarpið svokallaða..
En Höskuldur hefur einnig sent frá sér eina plötu, tímamótasmáskífuna Lóu litlu á Brú en hún var gefin út í litlu upplagi vorið 1995 í tilefni af þrítugs afmæli hans, þar fékk hann Mána Svavarsson til að útsetja og sjá um hljóðfæraleik í þessum gamla slagara og fóstbræðurna Stefán Hilmarsson og Eyjólf Kristjánsson til að syngja bakraddir en sjálfur annaðist Höskuldur aðalsönginn. Tvær útgáfur voru af laginu á skífunni, sungin og ósungin og komst lagið m.a.s. inn á Íslenska listann. Skífan telst vera tímamótaútgáfa fyrir það að vera fyrsti þriggja tommu geisladiskurinn (mini disc) sem kom út hér á landi – og e.t.v. sá eini.














































