Höskuldur Lárusson (1969-)

Höskuldur Lárusson

Nafn tónlistarmannsins Höskuldar Arnar Lárussonar poppar reglulega upp í íslenskri tónlist en hann hefur bæði starfað einn og með hinum ýmsu hljómsveitum.

Höskuldur Örn Lárusson er fæddur haustið 1969 í Reykjavík en er að mestu uppalinn á Hellu. Það var þó ekki fyrr en að hann var fluttur á höfuðborgarsvæðið að hann lét að sér kveða í tónlistinni, fyrst sem trúbador í leiksýningunni Hrói höttur sem Leikfélag Hafnarfjarðar setti á svið 1990 og svo með hljómsveitum eins og Mikka ref, Munkum í meirihluta og svo Spoon sem varð til í tónlistarskóla FÍH og sló í gegn með plötu samnefndri sveitinni árið 1994, með lögum eins og Tomorrow og Taboo en Höskuldur samdi einmitt þau lög – hann hefur yfirleitt verið aðal lagahöfundur þeirra sem sveita sem hann hefur starfað með. Spoon var kjörin efnilega hljómsveit Íslensku tónlistarverðlaunanna 1994 og þar hlaut Höskuldur einnig tilnefningu sem lagahöfundur ársins.

Spoon starfaði til ársins 1996 og þá hafði Höskuldur einnig verið í skammlífri sveit – Lemon (einnig nefnd Hauslausir), sem einnig sendi frá sér efni en síðan spurðist lítið til hans um hríð, líklega var hann þó eitthvað að koma fram einn á þessum tíma, og reyndar hafði hann árið 1993 sungið lagið Er mengun hverfur (e. Jóhann G. Jóhannsson) á safnplötunni Kærleikur, sem hafði að geyma nokkra unga og efnilega söngvara.

Það var svo árið 2003 Höskuldur birtist aftur á sjónarsviðinu en það var á allt öðrum vettvangi, hann var þá einn lagahöfunda sem komst í fimmtán laga úrslit undankeppni Eurovision en það var með lagið Allt, sem hann flutti sjálfur. Textann vann hann með Agli bróður sínum en þeir höfðu einnig starfað saman við texta hljómsveitarinnar Spoon. Á næstu árum starfaði hann einn og meðal verkefna hans þá var að vinna lag (African sky) fyrir góðgerðarsamtökin Shoe 4 Africa en það kom út á smáskífu í flutningi hans og söngkonunnar Hrundar Óskar Árnadóttur. Um það leyti hóf hann að vinna að tónlist undir nafninu Greybird en hefur einnig starfað undir nafninu Hössi Lár, og hefur allt til þessa samið og sent frá sér tónlist með reglulegu millibili.

Frá árinu 2010 hefur Höskuldur einnig starfað með nokkrum hljómsveitum, hér má nefna Blue Monday sem var blússkotin sveit, Low-mid-high sem síðar fékk nafnið Kíma en sú sveit sendi frá sér efni og spilaði töluvert opinberlega. Þá var hann um tíma viðloðandi hljómsveitina Taugadeildina þegar hún kom fram á sjónarsviðið á nýrri öld, og lék með henni um tíma. Þegar Spoon kom saman á nýjan leik árið 2016 undir nafninu Forks & kvives var hann að sjálfsögðu þar einnig.

Efni á plötum