Afmælisbörn 12. september 2025

Hrefna Unnur Eggertsdóttir

Í dag eru fimm tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Þorbjörn Sigurðsson hljómborðs-, gítarleikari og söngvari er fjörutíu og sex ára gamall á þessum dagi. Fáir hafa spilað með jafn mörgum hljómsveitum og Þorbjörn en meðal þeirra sem hafa notið þjónustu hans eru Byltan, Írafár, Tristian, Dr. Spock, Ensími, Jeff who?, Motion boys og Mugison bandið. Hann hefur einnig sungið með Schola Cantorum.

Hallur Ingólfsson tónlistarmaður er fimmtíu og sex ára gamall í dag. Hallur hefur starfrækt og starfað með fjölmörgum og misþekktum hljómsveitum í gegnum tíðina, Bleeding volcano, Boneyard, Gypsy, Ham, Skepna, Tíbet tabú og XIII eru meðal þeirra. Hallur hefur samið efni fyrir leikhús og dansverk, auk þess að gefa út sólóefni.

Siglfirðingurinn Sturlaugur Kristjánsson (Stúlli) fagnar sjötíu og tveggja ára afmæli í dag. Þekktasta sveit Sturlaugs er Miðaldamenn þar sem hann lék yfirleitt á bassa en hann hefur einnig leikið með hljómsveitum eins og Rauðu varðliðunum, Attack, Fílapenslum Siglufjarðar og Roðlaust og beinlaust, auk þess að leika pöbbatónlist við annan mann undir nöfnunum Stúlli & Dúi, Stúlli & Danni, Stúlli & Sævar o.fl. Sturlaugur hefur jafnframt stjórnað Vorboðakórnum á Siglufirði.

Freymóður Jóhannsson laga- og textahöfundur (1895-1973) átti einnig afmæli á þessum degi en höfundarnafn hans var einmitt Tólfti september, eftir fæðingardeginum. Freymóður samdi fjölda laga sem allir kannast við og má sem dæmi nefna Bergmál hins liðna, Draumur fangans, Litli tónlistarmaðurinn, Í faðmi þér og Frostrósir, systkinin Elly og Vilhjálmur Vilhjálms gerðu lögum hans skil á einni plötu sinna.

Þá á píanóleikarinn Hrefna Unnur Eggertsdóttir afmæli í dag en hún fagnar reyndar stórafmæli því hún er sjötug. Hrefna kemur upphaflega af Suðurnesjunum en nam í Reykjavík og Vín, hún hefur komið fram sem einleikari og undirleikari á ótal tónleikum og tónlistarviðburðum í gegnum tíðina og leik hennar má einnig heyra á nokkrum plötum. Eina slíka hefur hún gefið út ásamt eiginmanni sínum Kjartani Óskarssyni.