Afmælisbörn 5. október 2025

Valur Arnarson

Fimm tónlistartengd afmælisbörn koma við sögu á þessum degi:

Valur Arnarson fagnar fimmtíu og tveggja ára í dag. Valur hefur starfað sem söngvari, hljómborðsleikari og trommuleikari með fjölmörgum hljómsveitum í gegnum tíðin sem sumar hverjar hafa verið í þyngri kantinum, hér má nefna sveitir eins og Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur, Gormar og geimfluga, Johnny Kane and the Cains, Kósínus, Súper María Á, Elvis Pressplay and the heartbreakers, Skrýtnir, Woolly and the teenagers, Fussumsvei og Systir guðs.

Akureyringurinn Egill Logi Jónasson sem einnig er þekktur undir nafninu Drengurinn fengurinn er þrjátíu og sex ára gamall á þessum degi. Þessi fjöllistamaður er afar afkastamikill tónlistarmaður og hefur sent frá sér ógrynni skífa frá árinu 2013 og er hvergi nærri hættur.

Tónlistarkonan Sara Flindt sem einnig er þekkt undir nafninu ZAAR er tuttugu og níu ára gömul í dag. Sara er dönsk og hefur búið hér og starfað um árabil, m.a. með Salóme Katrínu og Rakel Sigurðardóttur í ýmsum tónlistarverkefnum síðustu árin auk þess að starfa í tvíeykinu Saralóa. Nokkrar smá- og breiðskífur hafa komið út með Söru.

Kristinn Þeyr Magnússon (oftast kallaður Kikkó) er fimmtíu og fjögurra ára í dag. Hann er frá Akureyri og hefur starfað sem söngvari með fjöldanum öllum af hljómsveitum, hér eru nefndar sveitir eins og Hausverk, Skurður, Drep, Sker og Hún andar en sumar þeirra hafa sent frá sér plötur.

Tvíburabróðir Kristins Þeys, raftónlistarmaðurinn Rúnar Þór Magnússon á eðli málsins samkvæmt einnig fimmtíu og fjögurra ára afmæli en hann hefur starfað með sveitum eins og Daman og hérinn og Vindva mei en einnig sent frá sér fjölda sólóskífna í gegnum tíðina. Rúnar hefur búið erlendis um árabil.