Afmælisbörn 4. nóvember 2025

Jóhannes úr Kötlum

Tvö tónlistartengd afmælisbörn eru á lista Glatkistunnar í dag:

Ljóðskáldið Jóhannes (Bjarni Jónasson) úr Kötlum (1899-1972) átti afmæli á þessum degi. Fjöldi tónlistarfólks hefur í gegnum tíðina fært ljóð Jóhannesar í lagaform og gefið út á plötum, þeirra á meðal má nefna Valgeir Guðjónsson sem reyndar á að baki þrjár plötur byggðar á ljóðum hans, Halldór Kristinsson, Barnakór Akureyrar o.fl., og enn fleiri hafa sent frá sér stök lög við ljóð Jóhannesar s.s. Guðmundur Rúnar Lúðvíksson, Þrír háir tónar o.fl. svo fáeinir séu hér nefndir. Rödd skáldsins hefur ennfremur heyrst á plötum en þar má nefna plötuna Stjörnufákur: Jóhannes úr Kötlum les eigin ljóð (1979).

Og svo er það Hafnfirðingurinn Kári Ibsen Árnason trommuleikari en hann er fimmtíu og tveggja ára gamall á þessum degi. Kári sem hefur einkum tengst djassgeiranum hefur leikið á trommur með fjölda hljómsveita, hér má nefna sveitir eins og Gagarín, Í svörtum fötum og Sveifluvaktina en hann hefur einnig starfrækt hljómsveitir í eigin nafni eins og Kvartett Kára Árnasonar sem einnig hefur gengið undir nafninu Quadropedic.