
Ársæll Þór Ingvason
Fjórir tónlistarmenn prýða afmælisdagaskrá Glatkistunnar að þessu sinni:
Jón Geir Jóhannsson trommuleikari á stórafmæli en hann er fimmtugur í dag. Jón Geir hefur spilað með fleiri þekktum hljómsveitum en flestir aðrir hljóðfæraleikarar, meðal sveita sem hann hefur leikið með eru Skálmöld, Kalk, Bris, Ampop, Sýróp, Klamidía X, Hraun, Trassarnir og Urmull.
Hip hop tónlistarmaðurinn Ársæll Þór Ingvason fagnar í dag fjörutíu og fjögurra ára afmæli sínu í dag. Ársæll er reyndar þekktari undir nöfnunum DJ Intro, Introbeatz o.fl. og hefur starfað sem skratsari, rappari og diskósnúður með fjölda rapp- og hip hop sveita í gegnum tíðina og hér má nefna sveitir eins og Supah syndical, Tha Faculty og Forgotten Lores en afrakstur hans má heyra á fjölda útgefinna platna.
Þá á Magnús R. Einarsson tónlistar- og dagskrárgerðarmaður sjötíu og þriggja ára afmæli í dag. Magnús hefur starfað með fjölmörgum hljómsveitum í gegnum tíðina og leikið í þeim aðallega á gítar og mandólín, Bítladrengirnir blíðu, Einsdæmi, Fánar, Gæðablóð, Brimkló, Sviðin jörð, 3,50, Þokkabót, Slow-Beatles, Ríó tríó, Spottarnir og Hljómsveit Jarþrúðar eru aðeins nokkrar af miklum fjölda sveita sem Magnús hefur starfað með en einnig hefur hann leikið inn á plötur margra tónlistarmanna.
Að síðustu er hér nefndur tónfræðingurinn Hjörtur Lárusson sem vestur í Bandaríkjunum gekk undir nafninu Harrý Lárusson. Hjörtur fæddist á Íslandi 1874 en flutti ungur vestur um haf og starfaði alla tíð fyrst vestur í Winnipeg í Kanada og svo í Minneapolis í Bandaríkjunum sem tónlistarkennari, kórstjórnandi, tónskáld og tónlistarmaður. Hjörtur lést árið 1960.














































