Ábóta vant
(Lag og texti: Sævar Sigurgeirsson)
Ég var eins og aflóga klaustur sem var ábótavant
og allir munkarnir stjórnlausir.
Sem illa lögð drusla á gangstétt, æ uppá kant
við alla og allt bæði síðar og fyrr.
Líf mitt var innantóm ömurð og allsendis laust
við allt sem helst gæti kallast gott.
Í sálarkytrunni ótíð og endalaustu haust,
á almættinu var skítaglott.
Samt get ég ekki lengur mér tamið tuð
því tilfellið er;
ég hætti við að baktala og berja guð
er birtist þú mér.
Svo nú hefur klaustrið sem áður var ábótavant
með abbadísinni braggast vel.
Druslan í stæði við stöðumæli, ef grannt
er skoðað, stillt og með nýja vel.
Líf mitt er endalaus tilbeiðsla tvímælalaust
og tóbak fer ekki í efri vör.
Já sálarhræið sem grafið fyrr var í fönn
reis furðu sprækt upp úr sinni kör.
Nú get ég ekki lengur mér tamið tuð
því tilfellið er;
ég hætti við að baktala og berja guð
er birtist þú hjá mér.
Nei, ég get ekki lengur mér tamið tuð
því tilfellið er
að eymdin hefur snúist í stanslaust stuð
sem stigmagnast fer.
Því núna ég sé hvorki sól eða tungl fyrir þér
og svolítið fleira af plánetum horfið er mér.
[af plötunni Ljótu hálfvitarnir – Ljótu hálfvitarnir [4]]














































