Afi og amma

Afi og amma
(Lag / texti: Friðrik Bjarnason / Hinrik Bjarnason)

Þegar brimið brýtur strönd,
blærinn strýkur kinnar,
geng ég enn um ævilönd
afa‘ og ömmu minnar.
Lítil rúst og lind við mó
langa sögu geyma
vonar, sem í brjósti bjó,
bæn um fegri heima.

Þar sem áður örsnauð þjóð
óð um votar grundir
syngjum við nú sæl og rjóð
sólarstöfum undir.
Annað svipmót, annan brag
okkar stundir hafa,
syngjum þó hið sama lag,
söngva ömmu‘ og afa.

Áa vorra ævispor
yfir stein og grundir
efla skulu þrek og þor
þungar mæðustundir.
Ennþá brýtur aldan strönd,
ennþá roðna kinnar,
ennþá halda ættarbönd
afa´og ömmu minnar.

[af plötunni Bragsmiðurinn Hinrik Bjarnason áttræður – ýmsir]