Afmæliskveðja [2]

Afmæliskveðja [2]
(Lag / texti: Óðinn G. Þórarinsson / Einar Georg)

Þó bætist ár við ár
og aldur hrímgi brár
æskudraumnum aldrei skaltu týna.
Þú geymir söng í sál
hið sanna tungumál,
elsku vinur upp með þína skál.

Enginn skyldi liðinn tíma trega
týnt þó hafi staf og mal.
Stundum felur þoka vörður vega,
vandratað er lífs um táradal.

Í innsta eðli býr
og áfram manninn knýr
áköf löngun eftir fylling vona.
Og enn má eygja strönd
við ystu sjónarrönd,
þar eru okkar æskudraumalönd.

[á plötunni Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar – Við tónanna klið: Lög Óðins G. Þórarinssonar]