Bíldudals-Kata

Bíldudals-Kata
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)

Þau voru fljóðin viðmótsþýð
vestur á Patró forðum tíð.
En Kata af þeim öllum bar
upp þegar slegið balli var.
Í okkur kveikti hún ástarblossa,
í okkur lét hún blóðið fossa
þegar hún snerist hring, hring, hring
en hún kyssti bara Svarta-Tóta Súðvíking.

Við rerum á gamla Faxa fimm
og frost var oft mikið og hríðin dimm.
En þegar við komum aftur inn
var óðara gleymdur helkuldinn.
Innilegast alltaf hló hún,
upp sínum fótum liprast sló hún
þegar hún snerist hring, hring, hring
útá gólfin með Skruggu-Gvendi Skálvíking.

Við eltum fiskinn um allan sjó
og erfiðið var oft meira en nóg.
En þegar við komum aftur inn
var aldrei neitt fengist um þrældóminn.
Heldur en ekki hnarreist var hún,
höfuð sitt jafnan stoltast bar hún
þegar hún snerist hring, hring, hring útá
gólfinu með Alla Kalla Ísfirðing.

Hann stundum lotulangur blés
á leiðinni fyrir Sléttanes.
En þegar við komum aftur inn
var óðara gleymdur stormurinn.
Ungpíulegt sitt höfuð hneigði hún,
heillandi nett sitt mitt sveigði hún
þegar hún snerist hring, hring, hring
útá gólfinu með Flotta-Pétri Flateyring.

Hann ljótur var oft í Látraröst
með löðrandi brim og iðuköst.
En þegar við komum aftur inn
var óðara gleymdur lífsháskinn.
Brosandi sínum öxlum yppti hún,
uppfyrir hné sínu pilsi lyfti hún
þegar hún snerist hinrg, hring, hring
útá gólfinu með Breiða-Steina Bolvíking.

Þau voru fljóðin viðmótsþýð
vestur á Patró forðum tíð.
En Kata af þeim öllum bar
upp þegar slegið balli var.
Í okkur kveikti hún ástarblossa,
í okkur lét hún blóðið fossa
þegar hún snerist hring, hring, hring
en hún kyssti bara Svarta-Tóta Súðvíking.

[m.a. á plötunni Þrjú á palli – Tekið í blökkina]