Ég vildi (óður til viðtengingarháttar)
(Lag / texti: Ragnhildur Veigarsdóttir og Vigdís Hafliðadóttir / Vigdís Hafliðadóttir)
Ég vildi’ að þú sæir mig.
Ég vildi’ að þú hlægir þegar ég segi eitthvað snjallt
en misstir ekki af því – sem gerist alltaf.
Ég vildi að þú spyrðir: Jæja, hvað segir þú nú gott?
Segðir að eitthvað sem ég gerði væri flott.
Sjáðu mig, dáðu´ og þráðu mig.
Ég vildi’ að ég kætti þig.
Ég vildi’ að þér þætti leitt ef ég mætti ekki á vakt.
En það breytti engu – get sagt mér það núna.
Ég vildi að þú sendir: „ætlarðu að koma á *ónefndan* bar?
Það gleddi mig ef að ég sæi þig þar“.
Sjáðu mig, dáðu’ og þráðu mig.
Ég vildi að ég skildi betur líðan þína og hyldi betur löngun mína.
Ég vildi að ég þyldi þig ekki.
Ég vildi mest að ég vildi ekki neitt af þessu hér.
[af plötunni Flott – Pottþétt flott]














































