Fótglímufélagið
(Lag og texti: Gunnar Örn Jónsson og Hafþór Ólafsson)
Allir mæta á mínútunni,
að missa‘ úr tíma enginn vill
en ef svo hendir eru bara
óhrein öfl að verki og ill.
Ellefu enni eitilharða skalla,
Fótglímufélagið á þá alla.
Í leiknum verða allir liprir
líkt og brotni af þeim hlekkir,
oft þá breytast aldnar kempur
í eldingu sem enginn þekkir.
Fimir fætur, flinkar tær,
Fótglímufélagar eiga þær.
Sentra gefðu, sendu boltann,
svífandi innað endamörkum,
hann skal enda inni þessi
í ekki meira‘ en átta spörkum.
Ellefu enni eitilharða skalla,
Fótglímufélagið á þá alla.
Látið ganga bolta bræður,
berjist eins og ljón og apar,
því lítil verður lukkan í
liðinu sem tapar.
Fimir fætur, flinkar tær,
Fótglímufélagar eiga þær.
Það verður bara að vera ljóst,
vaða má hér enginn reyk,
við systur erum innan vallar
því enginn er annars bróðir í leik.
Ellefu enni eitilharða skalla,
Fótglímufélagið á þá alla.
[af plötinni Súkkat – Ull]














































