Hæsta hendin (2003-06)

Hæsta hendin – Blaz Roca og U-Fresh

Hip hop sveitin Hæsta hendin starfaði í fáein ár á fyrsta áratug aldarinnar, sendi frá sér eina skífu og kom fram á tvennum stórum tónleikum sem haldnir voru hér á landi. Sveitin var upphaflega fjögurra manna en síðar var yfirleitt talað um hana sem dúett.

Hæsta hendin (ekki Hæsta höndin) var líklega stofnuð árið 2003 af röppurunum Erpi Eyvindarsyni (þekktur sem Blaz Roca úr XXX Rottweiler hundunum) og Unnari Frey Theódórssyni (U-fresh / U-manden) en þeir bjuggu þá í Danmörku – og reyndar hafði Unnar búið þar um langt árabil. Þeir fengu til liðs við sig taktsmiðina Nick Kvaran (sem ku vera hálfíslenskur) og Rasmus Berg sem m.a. höfðu starfað með vinsælli danskri rappsveit Den Gale Pose, og þannig skipuð fór sveitin af stað og kom líklega fyrst fram opinberlega á stórtónleikum 50 cent og G-Unit í Laugardalshöllinni sumarið 2004 ásamt fleiri upphitunaratriðum. Þar frumflutti sveitin lagið Botninn upp, sem varð í kjölfarið nokkuð vinsælt, í því lagi nutu þeir fulltingis íslensks-færeyskrar söngkonu Ann Elisabeth Berg.

Hæsta hendin vann að breiðskífu um þetta leyti í Danmörku og hún kom út um haustið á vegum þeirra sjálfra og bar nafn sveitarinnar, á henni var að finna ellefu lög en þeir félagar fengu þar til liðs við sig nokkra gesti eins og venja er á plötum með rappsveitum, hér má nefna áðurnefnda Elisabeth, rapparann Proof (úr D12) o.fl. Skífan hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu og Fókus, og fylgdi sveitin henni eftir með tónleikahaldi um haustið, hún kom m.a. fram á Rímnaflæði og víðar en þar voru þeir líkast til bara tveir Erpur og Unnar, og svo virðist sem Nick Kvaran og Rasmus Berg hafi ekki komið meira fram með þeim félögum.

Sumarið 2005 kom Hæsta hendin aftur fram á stórum tónleikum, þá hitaði sveitin ásamt fleirum upp fyrir Snoop Dogg í Egilshöll, og tróð svo meira upp síðsumars s.s. í Galtalæk um verslunarmannahelgina og eitthvað meira. Um haustið lagðist sveitin í dvala í um árs skeið en birtist svo á nýjan leik haustið 2006 og skemmti lítillega þá en hafa ekki komið fram opinberlega síðan.

Efni á plötum