Hallbjörg Bjarnadóttir (1917-97)

Hallbjörg Bjarnadóttir

Söngkonan Hallbjörg Bjarnadóttir var sannkallað kamelljón en hún hafði þá hæfileika að raddsvið hennar var víðara en annarra og því gat hún sungið á söngsviði sem spannaði fjórar áttundir, hún skemmti víða um heim með því að herma eftir þekktum söngvurum af báðum kynjum.

Hallbjörg Bjarnadóttir fæddist á Snæfellsnesi vorið 1917 – reyndar eru heimildir örlítið misvísandi varðandi fæðingarár hennar, í Íslendingabók er hún skráð fædd 1915 en það ártal mun hafa verið hrein ágiskun þar sem kirkjubækur með upprunalegu upplýsingum munu hafa brunnið í kirkjubruna, tvíburasystir hennar Kristbjörg er hins vegar skráð fædd 1917 í kirkjubókum og því er miðað við það ártal. Hallbjörg missti ung föður sinn og henni var komið fyrir í fóstri á Akranesi þar sem hún ólst upp við góðar aðstæður.

Hallbjörg söng mikið á barnsaldri og fljótlega var eftir því tekið hversu raddsterk hún var, reyndar svo að stundum horfði til vandræða eins og í kórsöng á barnsaldri, hún lék jafnframt á hljóðfæri – lærði sjálf á munnhörpu og fékk svo orgel í fermingargjöf og byrjaði upp úr því einnig að semja sín fyrstu lög. Hún hafði strax á unglingsaldri áhuga á að nema söng og fimmtán ára gömul fór hún í söngnám til Reykjavíkur, fyrst hjá Benedikt Elfar og síðan Friðriki Hallgrímssyni um skamma hríð áður en hún tók þá ákvörðun að halda til Kaupmannahafnar til að læra óperusöng, þá sextán ára gömul.

Fljótlega eftir að Hallbjörg kom til Kaupmannahafnar urðu aðrir hlutir til að breyta plönum hennar, hún fór reyndar til Esbjerg fljótlega og var þar til að byrja með, lærði eitthvað söng hjá nokkrum kennurum en átti í vandræðum með að læra að lesa nótur vegna lesblindu en heillaðist af djasstónlist og fyrr en varði hafði hún gengið til liðs við tríó Erharts Bauer og síðan söng hún um tíma með eigin sveit áður en hún lagði land undir fót sem eins konar farandsöngkona þar sem hún kom fram á krám og söng djassstandarda ásamt þeim undirleikurum sem tiltækir voru á hverjum stað. Stundum hafði hún kött í bandi meðferðis á sviðinu, kött sem þá var heimilisköttur á þeim stað.

Hallbjörg starfaði í Danmörku næstu árin, hún hlaut grunnmenntun í leiklist og það hjálpaði henni við að koma fram og varð henni góð reynsla síðar í kabarettsýningum og víðar, hún varð nokkuð þekkt þar í landi og starfaði með ýmsum hljómsveitum og hópum, hún kom einnig fram í kabarett- og revíusýningum en kom stöku sinnum heim til Íslands og hélt hér tónleika þar sem hún söng djass fyrst íslenskra kvenna og e.t.v. fyrst allra hérlendis, sömuleiðis má ætla að hún hafi verið ein allra fyrst kvenna til að syngja djass á Norðurlöndunum.

Hallbjörg á yngri árum

Djassinn var á þessum tíma ný tónlistartegund hér á landi og það er víst óhætt að segja að Íslendingar voru ekki alveg tilbúnir fyrir svo framandi tónlist þar sem hinn klassíski íslenski einsöngur og kórsöngur réði enn ríkjum, ekki voru það eingöngu hljóðin sem vöktu undrun og jafnvel hneykslan heldur einnig fas Hallbjargar, hvernig hún klæddi sig, hreyfði sig og meira að segja brosti en þá tíðkaðist að tónlistarfólk hér á landi stæði grafkyrrt og alvarlegt á meðan flutningi stóð. Til að mynda þótti það jaðra við helgispjöll þegar hún söng „Siggi var úti“ í swing-stíl og dillaði sér á sama tíma. Kona ein sem sótti tónleika með Hallbjörgu ritaði fræga blaðagrein í kjölfarið þar sem hún fann söngkonunni og djassinum allt til foráttu, sú ágæta kona klikkti út með orðunum: „Strigabassi, mjaðmavagg og garg, – Drottinn minn! Fyrr má nú rota en dauðrota!“ Fordómar Íslendinga gagnvart djassinum urðu til þess að Hallbjörg ritaði blaðagrein til að verja djasstónlistina. Hallbjörg vakti þó hvarvetna athygli og iðulega var fullt hús á tónleikum hennar, hún söng einnig í útvarpinu og fyrsta plata hennar leit dagsins ljós árið 1938, sú skífa hafði að geyma lögin Jeg har elsket dig så længe jeg kan mindes / Moonlight and shadows sem hún söng við undirleik danskrar hljómsveitar en fyrrnefnda lagið átti síðar eftir að koma út á íslensku með henni undir nafninu Ennþá man ég – flestir ættu að kannast við textalínuna „ég hef elskað þig frá okkar fyrstu kynnum…“ úr því lagi.

Hálfgerð tilviljun olli því að Hallbjörg var heima á Íslandi þegar styrjöld hófst í Evrópu haustið 1939, hún fékk eins konar hugboð um að halda heim til föðurlandsins og svo fór að hún varð innlyksa hér á landi á stríðsárunum og söng þá m.a. með hljómsveit Jack Quinet á Hótel Borg og með sjö manna hljómsveit undir stjórn Carls Billich í Gamla bíói, þá fór hún einnig um landsbyggðina með tónleikahaldi og söng þá á tugum tónleika á hverju ári, stundum jafnvel ásamt systur sinni Steinunni Bjarnadóttur (Steinku Bjarna).

Það var um þetta leyti sem hún hóf að skemmta amerískum hermönnum með því sem þá var kallað að parodera, að herma eftir þekktu söngvurum af báðum kynjum en Hallbjörg hafði raddsvið sem spannaði fjórar áttundir og gat því í raun sungið bassa, alt, tenór og sópran. Hún brá sér því í gervi ýmissa þekktra söngvara, bæði íslenskra og erlendra og hér má nefna Maríu Markan, Stefán Íslandi, Marlene Dietrich, Judy Garland, Bette Davis, Al Jolson og Bing Crosby svo aðeins fáein nöfn séu nefnd.

Á stríðsárunum kynntist Hallbjörg verðandi eiginmanni sínum á Akureyri, danska lyfjafræðingnum Jens Fischer Nielsen en þau giftu sig eftir aðeins fjórtán daga kynni. Hallbjörg bjó því um tíma á stöðum eins og Akureyri, Stykkishólmi og Hafnarfirði þar sem Fischer starfaði sem apótekari en fljótlega lagði hann það starf til hliðar og settu hjónin upp kabarettsýningar ásamt fleirum og skemmtu gjarnan saman með stuttum söng- og leikþáttum auk þess sem hann sýndi sjónhverfingar og teiknaði skopmyndir.

Hallbjörg Bjarnadóttir

Eftir stríð fóru þau hjónin á hálfgert flakk og bjuggu í raun í ferðatöskum allt til 1958, mest í Danmörku en héldu skemmtanir og tónleika víða, m.a. á öllum Norðurlöndunum, Englandi, Þýskalandi, Hollandi og Frakklandi og komu svo reyndar einnig heim til Íslands reglulega til tónleikahalds, Hallbjörg naut sérstakra vinsælda í Finnlandi og fór þangað oft til að syngja á tónleikum og öðrum söngskemmtunum. Þess má geta að hún söng í sjónvarpi og útvarpi víða á Norðurlöndnunum sem og í breska ríkisútvarpinu BBC og einnig söng hún í Royal Albert Hall fyrst Íslendinga (árið 1946). Um það leyti hafði hún hug á að láta gamlan draum um að nema óperusöng rætast og hafði þá komist í samband við þekktan söngkennara í Bretlandi, slíkt var hins vegar dýrt og þegar hún hlaut ekki gjaldeyrisflutning hjá íslenskum yfirvöldum sem hún sótti um gaf hún þau áform á bátinn. Hún hélt hins vegar ótrauð áfram við að skemmta víða um lönd og jafnvel kom fyrir að þekktir söngvarar heilsuðu upp á hana eftir að hún hafði sungið með rödd þeirra – t.a.m. Nat King Cole, og Josephine Baker sem Hallbjörg starfaði reyndar með um skamma hríð, meðal annarra þekktra nafna sem hún starfaði með má nefna Ninu & Fredrik og Lulu Ziegler.

Hallbjörg varð í raun þekkt víða um lönd bæði sem djasssöngkona og „hermikráka“ og svo virðist sem einhverjar plötur hafi verið gefnar út með henni í Danmörku þótt öruggar heimildir um það finnist ekki, einnig liggur fyrir að tíu lög höfðu verið hljóðrituð með henni í Englandi fyrir Decca útgáfufyrirtækið – þar af tvö frumsamin lög (Night is coming og Iceland swing) en þær upptökur glötuðust að öllum líkindum. Um miðjan sjötta áratugnum komu loks út fjórar tveggja laga plötur með Hallbjörgu við undirleik hljómsveitar Ole Höyer sem voru hljóðritaðar í Kaupmannahöfn, tvær þeirra höfðu að geyma eftirhermusöng hennar en hinar tvær innihalda þau þrjú lög sem haldið hafa nafni hennar á lofti til þessa dags og teljast meðal perlna í frumdægurlagasögu Íslands. Það eru fyrrnefnt Ennþá man ég (Jeg har elsket dig…) í íslensku útgáfunni, Björt mey og hrein og Vorvísa (Vorið er komið), misskilningur hefur valdið því að síðasta talda lagið hefur verið talið eftir Svía að nafni Lindblad en lag eftir hann með sama titil var þá nokkuð vinsælt – hið rétta er að Hallbjörg samdi það sjálf, Lagið var reyndar mjög umdeilt og var lengi vel bannað í Ríkisútvarpinu, það ku hafa verið vegna „virðingarleysis“ söngkonunnar gagnvart ljóðskáldinu Jóns Thoroddsen í flutningi lagsins en einnig mun það hafa farið fyrir brjóstið á útvarpsráði að Hallbjörg bætti inn í textann „blessuð litlu börnin… leika sér að skeljum á hól.“ Þess ber einnig að geta að lagið Björt mey og hrein er ýmist sagt vera eftir Hallbjörgu eða vera íslenskt þjóðlag, þessi lög heyrast enn reglulega spiluð t.d. í útvarpi og eru meðal gullmola dægurlagasögunnar. Fjórða lagið hét Pedro Romero og var eftir Hallbjörgu.

Hallbjörg og Josephine Baker

Fyrrgreindar plötur höfðu komið út á vegum Fálkans en tvívegis stóð til að Hljóðfærahúsið gæfi út plötur með Hallbjörgu, óhöpp komu í veg fyrir það í bæði skiptin – upptökur höfðu verið gerðar hér á landi og í fyrra skiptið var um að ræða m.a. íslensk einsöngslög eins og Ég bið að heilsa (Nú andar suðrið) en vaxplatan sem hafði að geyma upptökurnar brotnaði í skipi á leið til Bretlands. Í síðara skiptið söng Hallbjörg lögin Á Sprengisandi og Tóta litla við undirleik Neó-tríósins en þær upptökur glötuðust í pósti á leið til Danmerkur. Hallbjörg naut aðstoðar Neó-tríósins á allmörgum tónleikum þegar hún kom í tónleikaferðir heim til Íslands, en einnig léku hljómsveitir m.a. undir stjórn Enars Markússonar, Árna Elfar o.fl. undir hjá söngkonunni. Stundum hélt hún tónleika hér á landi með öðrum söngvurum, seint á sjötta áratugnum kom hún t.d. fram mjög víða ásamt Hauki Morthens. Á þeim tíma hafði hún bætt nokkrum nýjum röddum í safn sitt í anda dægurmenningarinnar og rokksins og voru t.d. Marilyn Monroe og Elvis Presley þeirra á meðal sem og nóbelsverðlaunaskáldið Halldór Laxness – það verður þó að teljast ólíklegt að hún hafi sungið mikið með rödd hans.

Árið 1958 urðu þau tímamót hjá þeim hjónum að þau fluttu til Bandaríkjanna en Hallbjörgu fannst þá komið nóg af Evrópu í bili og vildi kanna nýjar lendur. Þau fluttu því vestur um haf, voru fyrst um sinn í New York og fóru síðan til Kaliforníu við vesturströndina, auk Kanada. Fyrir vikið fréttist minna af Hallbjörgu hér heima og lengra varð milli Íslandsferða hennar, hún kom þó hingað til lands árið 1964 og hélt þá m.a. tónleika í Háskólabíói sem þá var tiltölulega nýtt, hún var þá einnig með skemmtanir og tónleika í Sigtúni og Austurbæjarbíói.

Í Ameríku bjó hún og starfaði allt til 1983 en átti eðlilega erfiðara með að fóta sig í risastórum skemmtanabransanum þar vestra heldur en í Evrópu, tímarnir voru einnig að breytast og t.d. voru Bítlarnir að gera allt vitlaust í Bandaríkjunum á þeim tíma og komst lítið annað að þar, og síðan tóku blóma- og hippatímar við. Hún var þó heilmikið að skemmta á Ameríkuárunum sínum og kom m.a. fram í Gary More Show hjá CBS sjónvarpsstöðinni og hafði tækifæri til að koma fram í Ed Sullivan show en ekkert varð úr því vegna dynta hans og fordóma gagnvart atriðum hennar.

Árið 1969 varð Hallbjörg fyrir því að missa röddina og tók það um tvö ár að endurheimta hana, hún átti þó eftir að syngja aftur en röddin varð aldrei söm eftir það. Þetta varð henni auðvitað mikið áfall en á meðan hún var að jafna sig á raddmissinum hóf hún að mála myndir, eiginmaður hennar hafði þá eitthvað fengist við það og hvatti hana til að prófa og það varð til að hún átti eftir að mála það sem eftir var og halda m.a.s. sýningar á verkum sínum bæði vestur í Bandaríkjunum og síðar hér heima.

Hallbjörg ásamt Nat King Cole

Árið 1983 fluttu þau hjónin aftur til Evrópu frá Bandaríkjunum og voru þau í Danmörku um nokkurra ára skeið áður en þau komu til Íslands og settust hér að. Hallbjörg var þá að mestu hætt að koma fram opinberlega og syngja en hún kom þó fram á minningartónleikum um Hauk Morthens árið 1994 auk þess að koma fram í sjónvarpsþáttum Hermanns Gunnarssonar, Á tali með Hemma Gunn. Haustið 1989 kom út ævisaga Hallbjargar skráð af Stefáni Jökulssyni, hún bar titilinn Hallbjörg … eftir sínu hjartans lagi og þar var ævintýralegt lífshlaup hennar rakið.

Hallbjörg lést haustið 1997 á Landspítalanum eftir skammvinn veikindi en eftir standa þrjú lög sem halda munu nafni hennar á lofti og hafa reyndar komið út á ótal safnplötum í gegnum tíðina. Í blaðaviðtali fáeinum árum fyrir andlátið sagðist hún eiga á þriðja tug upptaka með söng sínum, og er löngu tímabært að athuga hvort ekki mætti vinna þær upptökur með útgáfu safnplötu í huga – Slíkar safnplötur hafa komið út af minna tilefni.

Skagamenn hafa haldið nafni Hallbjargar aðeins á lofti enda ólst hún þar upp að nokkru leyti, t.a.m. voru haldnir minningar- eða heiðurstónleikar um söngkonuna á Akranesi árið 2022, áður hafði verið gerður sjónvarpsþáttur um hana.

Efni á plötum