Halldór Bragason (1956-2024)

Halldór Bragason um fermingu

Óhætt er að segja með fullri virðingu fyrir bestu gítarleikurum landsins að Halldór Bragason sé gítar- og blúsgoðsögn hér á landi en hann vann að því hörðum höndum lengi vel að kynna blústónlistina og vinna að vexti og viðgangi hennar með spilamennsku og öðrum hætti. Hann starfrækti hljómsveit sína Vini Dóra í áratugi, kom að stofnun Blúsfélags Reykjavíkur, átti stóran þátt í að koma Blúshátíð í Reykjavík á koppinn og var listrænn stjórnandi hátíðarinnar og framkvæmdastjóri um árabil. Þá flutti hann til landsins blúsgoðsagnir sem hann átti í samstarfi við og bjó einnig vestanhafs um tíma til að sinna þessari köllun sinni.

Halldór Bragason (Dóri Braga) fæddist haustið 1956 í Reykjavík og bjó þar mestan part ævi sinnar. Hann fékk ungur áhuga á tónlist, sagði m.a. frá því í blaðaviðtali að hann hefði verið í McIntosh hljómsveit með Pollockbræðrum sem síðar voru m.a. í Utangarðsmönnum, og var farinn að leika með bílskúrssveitum á unglingsaldri. Hann fékk sinn fyrsta gítar í fermingargjöf og nam gítarfræði sín af Frakka sem bjó hér á landi, og spilaði reyndar með honum eitthvað á tónlistaruppákomum í framhaldsskólum.

Halldór ferðaðist nokkuð á yngri árum, var til sjós um tíma og fátt benti til að hann yrði þekktur tónlistarmaður. Hann nam rafeindavirkjun og starfaði við tæknimál hjá Ríkissjónvarpinu til fjölda ára, og mun hafa verið í innanhússbandi á þeim árum hjá stofnuninni. Það var svo á níunda áratugnum sem Halldór hóf að koma að tónlist að ráði þegar hann hóf að leika með Pétri Stefánssyni í Big nós band og PS&CO, m.a. í umdeildu lagi – Ung og rík sem hann reyndar samdi með Pétri.

Dóri árið 1990

Það var í febrúar mánuði 1989 að Dóri varð þekktur blústónlistarmaður þegar hann setti saman hljómsveit ásamt nokkrum þekktum tónlistarmönnum til að hita upp fyrir breska blústónlistarmanninn John Mayall og hljómsveit hans á Hótel Íslandi. Þessi sveit Halldórs sem hlaut nafnið Vinir Dóra átti aldrei að verða meira en eins kvölds verkefni en tiltækið þótti heppnast það vel að hún átti eftir að starfa í áratugi og leika á blústónleikum hér heima og víða erlendis. Dóri var þar með kominn á tónlistarkortið, varð þekktur blúsari með sveit sinni og hóf fljótlega að annast dagskrárgerð í útvarpi um blústónlist en það gerði hann í mörg ár. Árið 1990 urðu svo Blúsmenn Andreu (Gylfadóttur) til og með þeirri sveit starfaði hann einnig reglulega næstu áratugina, og ári síðar hófst samstarf Halldórs við bandarísku blústónlistargoðsögnina Chicago Beau en þeir áttu eftir að starfa heilmikið saman bæði á tónlistarsviðum víðs vegar hér heima og vestra, og á plötum. Þá starfaði Dóri töluvert með öðrum blústónlistarmönnum s.s. Pinetop Perkins, Jimmy Dawkins og fleirum og flutti reyndar vestur um haf til Kanada þar sem hann bjó og starfaði um tíma. Þess má geta að árið 1992 hlutu Halldór og Vinir Dóra viðurkenningu fyrir lag sem notað var í auglýsingu fyrir bandaríska körfuknattleiksliðið Chicago Bulls en hljómsveitin hafði þá leikið töluvert á blúshátíðum ytra undir nafninu The Blue Ice band.

Eftir að Halldór kom aftur heim frá Kanada um miðjan tíunda áratuginn hélt hann áfram að koma fram með hljómsveit sinni Vinum Dóra og Blúsmönnum Andreu en einnig starfaði hann um lengri og skemmri tíma með blússveitum eins og The Riot, Veröndinni, Nordic All Star blues band, BBK band, Blúsboltunum og Landsliðinu á næstu árum og áratugum, en oftar en ekki var hann aðalmaðurinn í þeim sveitum.

Halldór Bragason

Þá hófst einnig skeið þar sem Dóri vann hvað mest að útbreiðslu og framgangi blústónlistarinnar hér heima, það gerði hann t.a.m. með blúsnámskeiðum og tónlistarvinnustofu í grunnskólum og víðar m.a. ásamt Guðmundi Péturssyni en þeir störfuðu mikið saman. Halldór var jafnframt einn helsti hvatamaður að stofnun Blúsfélags Reykjavíkur haustið 2003 og í framhaldi af því var svo Blúshátíð í Reykjavík sett á laggirnar vorið eftir þar sem hann var fremstur í flokki og reyndar listrænn stjórnandi hennar um árabil, og gegndi einnig stöðu framkvæmdastjóra við hátíðina. Dóri kom einnig að öðrum blúshátíðum hér á landi s.s. á Ólafsfirði og Höfn í Hornafirði. Hann var gerður að heiðursfélaga Blúsfélags Reykjavíur árið 2013 fyrir framlag sitt til blústónlistarinnar hér á landi.

Halldór þurfti að þola ýmis áföll um ævi sína, hann lenti t.a.m. í flugslysi á níunda áratugnum þar sem hann átti í meiðslum um nokkra hríð, hann missti einnig son í byrjun aldarinnar og síðustu árin glímdi hann við erfið veikindi sem settu nokkuð mark sitt á hann.

Halldór lést af slysförum eftir bruna síðsumars 2024 en hann var þá á sextugasta og áttunda aldursári. Má segja að þar hafi íslenskt tónlistarlíf misst mikið og þá er ekki aðeins átt við blúshluta þess því Dóri naut mikillar og almennrar virðingar meðal tónlistaráhugafólks.

Efni á plötum