Halldór Þórólfsson (1879-1956)

Halldór Þórólfsson

Halldór Þórólfsson var stórt nafn í samfélagi Vestur-Íslendinga í Winnipeg í Kanada, þar stjórnaði hann kórum og kom oft fram sem einsöngvari en hann þótti hafa fagra baritón rödd.

Halldór Þórólfsson (Halldór Thorolfsson) fæddist í Dölum hér heima á Íslandi haustið 1879, hann missti móður sína ungur og fluttist vestur um haf til Winnipeg í Kanada með fósturforeldrum sínum árið 1887 átta ára gamall, þar bjó hann alla ævi síðan.

Halldór nam söng, að líkindum fyrstur Íslendinga í Winnipeg og var um árabil vinsæll einsöngvari á svæðinu, söng gjarnan einsöng í kirkjum sem og á tónleikum og öðrum samkomum Íslendinga. Hann var á yngri árum sínum einnig meðlimur í lúðraflokki Íslendinga í Winnipeg sem bar nafnið The Jubilee band eða Júbílár-hornleikaraflokkurinn en ekki liggja fyrir upplýsingar um á hvaða hljóðfæri hann lék þar.

Halldór stjórnaði einnig kórum í Winnipeg, hann stjórnaði blönduðum kór Kirkju fyrsta lútherska safnaðarins í mörg ár í byrjun 20. aldarinnar og í kringum 1910 einnig Kór Tjaldbúðarkirkjunnar, um það leyti var hann einnig með karlakórinn Geysi sem starfaði í Winnipeg. Síðar stjórnaði hann öðrum blönduðum kór, Icelandic choral society á árunum 1927-30 og söng hann sjálfur einsöng stöku sinnum með þeim kór. Árið 1945 virðist hann ennþá vera að stjórna kórsöng í Winnipeg en ekki finnast frekari upplýsingar um þann kór.

Halldór lést í janúar 1956 eftir nokkur veikindi.