
Hallfreður Örn Eiríksson
Hallfreður Örn Eiríksson þjóðfræðingur er einn öflugasti safnari þjóðlegs fróðleiks á Íslandi og talið er að hann hafi hljóðritað um þúsund klukkustundir af slíku efni, rímnakveðskap, þjóðlög og aðra alþýðutónlist (s.s. Passíusálma Hallgríms Péturssonar við gömul lög) auk annars þjóðlegs efnis.
Hallfreður fæddist árið 1932 að Fossi í Hrútafirði en fluttist ásamt fjölskyldu sinni ungur til Reykjavíkur. Hann nam þjóðfræði hér heima, í Tékkóslóvakíu og Írlandi og hóf fljótlega eftir það að safna þjóðlegum fróðleik og fór hann m.a. um allt land í slíkum erindagjörðum og reyndar einnig utan lands því hann fór ásamt eiginkonu sinni til Íslendingabyggða í Vesturheimi og hljóðritaði mikið af efni þar. Talið er að hann hafi hljóðritað um þúsund klukkustundir af slíku efni sem fyrr segir og þar með bjargað ómetanlegum menningarverðmætum frá glötun frá síðustu kynslóðunum sem höfðu rímur og skyldan kveðskap að daglegri skemmtun. Aukinheldur var hann með fyrstu mönnum til að nýta hljóðritunartæknina sem á allan hátt var betri en þær skráningaraðferðir sem áður höfðu tíðkast.
Hallfreður starfaði framan af sjálfstætt, vann svo bæði fyrir Handritastofnun og Ríkisútvarpið áður en hann gekk til liðs við nýstofnaða Stofnun Árna Magnússonar þar sem hann starfaði í áratugi, hann flutti fyrirlestra um efnið hér heima og erlendis, og var öflugur í hvers kyns alþjóðlegu fræðasamfélagi tengt efninu – hann sá jafnframt um fjölda útvarpsþátta um efnið.
Árið 1984 kom út kassettan Frá liðinni tíð: sagnir, kveðskapur og söngur (sem líklega fylgdi kennslubók) á vegum Námsgagnastofnunar en þar var að finna efni sem Hallfreður hafði safnað, og á sjötugs afmæli hans árið 2002 gaf Árnastofnun út plötuna Hlýði menn fræði mínu: Gamlar upptökur af sögum, rímum og kveðskap úr fórum Hallfreðar Arnar Eiríkssonar. Um það leyti hafði Hallfreður dregið sig í hlé frá fræðastörfum enda hafði hann þá greinst með Alzheimer sjúkdóminn. Árið 2009 kom svo út plata sem bar titilinn Heyrði ég í hamrinum: kveðandi og þjóðlegur fróðleikur kvenna úr Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu í segulbandasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, en á henni var að finna upptökur sem Hallfreður hafði safnað ásamt Helgu Jóhannsdóttur og Jóni Samsonarsyni.
Hallfreður lést sumarið 2005.














































