
Hallgrímur Bergsson
Hallgrímur Bergsson tónlistarmaður hefur samið og sent frá sér lög í gegnum tíðina en hann starfaði jafnframt m.a. með hljómsveitinni Eglu frá Fáskrúðsfirði um skeið.
Hallgrímur (f. 1958) bjó fyrstu æviárin á Stöðvarfirði en var lengi vel á Fáskrúðsfirði á yngri árum sínum einnig, þar í bæ starfaði hann sem hljómborðsleikari með hljómsveitum eins og Orfeus, Standard og síðan Eglu sem vakti nokkra athygli á sínum tíma þegar hún gat út plötuna Maður er manns gaman (1981) en sú plata er ein allra fyrsta – ef ekki sú fyrsta sem kom út á Austfjörðum. Sú sveit var endurreist löngu síðar og gaf þá út plötuna Þyrnirós. Hallgrímur hefur einnig unnið tónlist sem sólólistamaður og þegar SATT safnplöturnar komu út á níunda áratugnum átti hann lög á plötunum SATT 1 og SATT 2.
Lengi vel starfaði Hallgrímur við fjölskyldufyrirtækið Pólarsíld á Fáskrúðsfirði og sinnti því tónlistinni minna um áratuga skeið en síðar flutti hann á höfuðborgarsvæðið og hefur nú aftur snúið sér að tónlistinni í auknum mæli, bæði með því að endurreisa Eglu sem og með því að vinna að eigin tónlist en á síðustu árum hefur hann verið að senda frá sér eitt og eitt lag í eigin nafni og var m.a. með lag (Óskin mín / My wish) í undankeppni Eurovision keppninnar árið 2018 en Rakel Pálsdóttir flutti lagið.
Hallgrímur hefur jafnframt á síðustu árum starfaði með hljómsveitum eins og Musical nature og Nostal.














































