
Hallgrímur Sigtryggsson
Nafn Hallgríms Sigtryggssonar er líklega öllu stærra og þekktara innan Sambands íslenskra samvinnufélaga en tónlistarheimsins en hans ber þó að minnast fyrir störf sín að söngmálum.
Hallgrímur fæddist sumarið 1894 að Gilsbakka í Hrafnagilshreppi í Eyjafirði, hann fluttist síðan inn á Akureyri þar sem hann starfaði hjá Kaupfélagi Eyfirðinga um skeið áður en hann flutti suður yfir heiðar og hóf störf á nýstofnaðri skrifstofu SÍS í Reykjavík árið 1918 en þar starfaði hann í áratugi í forystuliði samvinnuhreyfingarinnar.
Á Akureyri hafði Hallgrímur byrjað að koma fram sem einsöngvari á tónleikum og öðrum söngsamkomum og líklega tók hann þar þátt í kórastarfi einnig en hann söng annan bassa. Þegar til Reykjavíkur var komið átti hann þátt í stofnun Karlakórs Reykjavíkur árið 1926 og hann var jafnframt í fyrstu stjórn kórsins. Á þessum árum nam hann söng hjá Sigurði Birkis (síðar söngmálastjóra) en hann söng einnig stundum einsöng með kórnum á tónleikum. Hallgrímur var meðlimur Karlakórs Reykjavíkur í áratugi og hann var þar orðinn elstur allra þegar skóflustunga var tekin að nýju félagsheimili kórsins í Skógarhlíð árið 1987 og því féll það í hans verkahring að stinga niður skóflunni. Hann hafði þá verið heiðraður fyrir löngu síðan fyrir starf sitt innan kórsins.
Hallgrímur lést sumarið 1990, fáeinum dögum fyrir nítugasta og sjötta afmælisdag sinn.














































