
Hanniböl
Þjóðlagatríó sem bar nafnið Hanniböl var starfrækt á höfuðborgarsvæðinu í nokkra mánuði árið 1973 en þá um vorið kom það fyrst fram opinberlega í sjónvarpsþætti hjá Lítið eitt. Í kjölfarið kom tríóið eitthvað áfram fram með söngdagskrá um sumarið þar sem það lék að mestu frumsamda texta við eigin lög og annarra, m.a. á Akranesi, Keflavík og á Ísafirði. Nafn sveitarinnar var hugsað sem fleirtala af karlmannsnafninu Hannibal.
Meðlimir Hannibala voru í upphafi þeir Matthías Kristiansen gítarleikari, Hilmar J. Hauksson gítar- og munnhörpuleikari og Hjálmar Sverrisson gítarleikari en þeir sungu jafnframt allir þrír. Þegar Hilmar yfirgaf sveitina kom Karl Hálfdánarson kontrabassaleikari í hans stað.
Hanniböl starfaði fram á haustið þegar Matthías gekk til liðs við hljómsveitina Ópus og hætti sveitin þá í kjölfarið.














































