Harald G. Haraldsson (1943-)

Harald G. Haralds

Harald G. Haralds leikari var kunnur rokksöngvari hér á árum áður en hann söng með nokkrum hljómsveitum á upphafsárum rokksins.

Harald Gudberg Haraldsson er fæddur 1943 í Reykjavík og hefur búið þar alla tíð. Hann kom fyrst opinberlega fram sem söngvari vorið 1958 á tónleikum norsku söngkonunnar Noru Brocksted í Austurbæjarbíói en hann var þá aðeins fjórtán ára gamall.

Á næstu árum tróð hann upp og söng þekkta rokkslagara með hinum og þessum hljómsveitum s.s. hljómsveit Skapta Ólafssonar, Fjórum jafnfljótum, Tígris sextettnum og Venus sextettnum áður en hann varð fastráðinn söngvari Diskó sextettsins árið 1960 og söng með þeirri sveit við töluverðar vinsældir þar til vorið 1961 þegar hann var ráðinn til KK-sextettsins sem þá var ásamt Lúdó sextett vinsælasta hljómsveit landsins. KK-sextettinn starfaði reyndar aðeins fram að áramótum 1960-61 sem húshljómsveit í Þórscafe en sveitin hætti þá störfum.

Harald var ekki lengi aðgerðarlaus því hann var samstundis tekinn inn í Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar sem tók við keflinu ásamt Lúdó í Þórscafe. Sú sveit fór svo á flakk á sumrin þannig að Harald varð þekktur um land allt sem rokksöngvari og mjög vinsæll sem slíkur. Með hljómsveit Andrésar söng hann fram í mars 1963 en þá tók við nokkurra mánaða tímabil með Hljómsveit Finns Eydal í Leikhúskjallaranum, og svo lítillega með hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar en um haustið hætti hann öllum söng og sneri sér að allt öðrum hugðarefnum, leiklistinni – hann fór í leiklistarnám í Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur og eftir útskrift þar varð hann þekktur sviðsleikari og starfaði um árabil sem fastráðinn leikari hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Þjóðleikhúsinu og víðar. Þótt hann legði ekki fyrir sig söng lengur kom þó fyrir að hann tók þátt í uppfærslum á söngleikjum og má geta að hann var meðal leikenda í Jesus Christ Superstar sem sett var á svið 1973 en þar lék hann Heródes konung, einnig söng hann og lék í Saumastofunni (1976) og í Gretti (1980) en plötur komu út með tónlistinni úr tveimur síðast töldu söngleikjunum þar sem heyra má söng Haralds. Þá skal þess einnig getið að Harald las inn á fjölmargar teiknimyndir (og söng þar eitthvað einnig) á nýrri öld, og hér má nefna myndir eins og Toy story, Shrek, Cars og Bee movie.

Harald G. Haralds

Árið 1983 birtist Harald á nýjan leik sem rokksöngvari þegar tónlist „týndu kynslóðarinnar“ var sett á svið á Broadway og víðar, þá var hann meðal söngvara í sýningu sem bar yfirskriftina Rokkhátíð á Broadway og síðar í sýningunum Í gegnum tíðina – Manstu lagið? (1984) og Rokk ´93 (1993). Árið 1984 hafði komið út tvöföld plata með KK sextettnum undir titlinum Gullárin, sú plata hafði að geyma gamlar upptökur með sveitinni og á henni má heyra eitt lag með Harald sem söngvara. Harald fékkst aðeins meira við söng á tíunda áratugnum en hann tróð stöku sinnum upp með Tríói Ólafs Stephensen og söng djass með þeim félögum. Hann hefur þó síðustu áratugina lítið eða ekkert sungið opinberlega.

Sem kunnugt er er Harald faðir Daníels Ágústs Haraldssonar söngvara Nýdanskrar og Gus gus.