Haraldur Sigurðsson [1] (1892-1985)

Haraldur Sigurðsson

Píanóleikarinn Haraldur Sigurðsson var virtur hér á landi enda var hann einn allra fyrstur Íslendinga til að mennta sig í tónlist. Nokkrar útgefnar upptökur eru til með píanóleik hans frá fyrstu áratugum síðustu aldar.

Haraldur var fæddur í Hjálmholti í Flóanum í Árnessýslu vorið 1892 og kenndi sig ætíð við Kaldaðarnes en þar bjó hann frá unga aldri. Hann var ekki gamall þegar uppgötvaðist hversu næmt tóneyra hann hafði en hann gat sagt til um tónhæð ýmissa hljóða sem hann heyrði fárra ára gamall, sagan segir jafnvel að hann hafi getað sagt til um í hvaða tónhæð kýrnar á bænum bauluðu. Það var því afráðið að senda drenginn í tónlistarnám eftir að faðir hans hafði kennt honum lítillega á harmóníum sem til var á bænum, en hann fór utan til Kaupmannahafnar árið 1908 aðeins sextán ára gamall til að nema píanóleik. Næstu árin var hann við nám í Danmörku, lauk því árið 1912 og fór svo í beinu framhaldi af því til Dresden í Þýskalandi í framhaldsnám, á námsárunum í Þýskalandi sigraði hann hina víðfrægu Mendelsohn píanóleikarakeppni sem er ein æðsta viðurkenning sem píanóleikari getur fengið.

Haraldur kynntist þýsku söngkonunni Doru Köcher í námi sínu í Dresden og giftust þau en þau áttu eftir að halda oft tónleika saman heima á Íslandi, hún tók upp nafnið Dóra Sigurðsson. Þau hjónin fluttust til Danmerkur og bjuggu þar síðan alla tíð enda var enginn starfsvettvangur fyrir þau hér á landi á þeim tíma. Þau komu þó reglulega til landsins til tónleikahalds og sumarleyfisdvala, og dvöldu þá löngum austur í Kaldaðarnesi en lengra varð milli Íslandsferða þeirra eftir að foreldar Haraldar létust. Þau héldu hér tónleika ýmist saman eða Haraldur einn og léku í „tónleikasölum“ þess tíma hér á landi, Bárunni, Gúttó við Tjörnina, Gamla bíói og Nýja bíói og iðulega fyrir fullu húsi. Einnig lék Haraldur oftsinnis undir söng helstu einsöngvara landsins á þessum tíma s.s. Péturs Á. Jónssonar, Eggerts Stefánssonar, Elsu Sigfúss og Stefáns Íslandi, bæði hér á landi og erlendis. Þess má geta að Haraldur lék eitt sinn á tónleikum í Viðeyjarkirkju, til styrktar kirkjunni þar.

Erlendis lék Haraldur á tónleikum víða um Evrópu á starfsferli sínum en þau hjónin störfuðu að mestu leyti í Kaupmannahöfn við kennslu við Konunglega listaháskólann, jafnframt komu út nokkrar plötur með píanóleik Haraldar en þar var hann yfirleitt undirleikari söngvara – t.d. komu út nokkrar þess konar plötur með söng Dóru á þriðja áratugnum og nokkrar til viðbótar með söng Maríu Markan með hann sem undirleikara á fjórða áratugnum. Löngu síðar kom svo viðlíka plata út með Stefáni Íslandi. Árið 2017 kom út tólf diska safnplötukassi í Danmörku sem bar heitið Det Kongelige danske musikkonservatorium (The Royal danish academy og music 150 years), þar flytur Haraldur nokkur tónverk.

Haraldur Sigurðsson

Haraldur naut mikillar virðingar hér á landi enda voru ekki margir íslenskir píanóleikarar á þeim tíma, hann var t.a.m. fenginn í undirbúningsnefnd fyrir Alþingishátíðina sem haldin var á Þingvöllum í tilefni af 1000 ára afmæli alþingis hér á landi. Dagblöðin hér heima voru jafnframt dugleg að flytja fréttir af tónleikahaldi Haraldar á erlendum vettvangi og móttökum sem hann hafði fengið enda gerði hann sér far um að flytja tónverk eftir íslensk tónskáld á tónleikum, blöðin gerðu honum jafnfram skil þegar þau hjónin komu til Íslands og tóku gjarnan viðtal við hann.

Eftir heimsstyrjöldina síðari fækkaði ferðum Haraldar til landsins, ein slík ferð var þó á döfinni sumarið 1947 og þá var dóttir þeirra, klarinettuleikarinn Elísabet Haraldsdóttir með í för og hélt hún einnig tónleika þá. Frá árinu 1949 gegndi hann prófessorastöðu við konunglega listaháskólann til 1962 þegar honum var gert að hætta sökum aldurs en hann var þá orðinn sjötugur, þá hafði hann kennt mörg hundruð manns á píanó.

Haraldur lést sumarið 1985 í Kaupmannahöfn en hann var þá orðinn níutíu og þriggja ára gamall.