Harmonikufélag Reykjavíkur [2] [félagsskapur] (1986-)

Merki Harmonikufélags Reykjavíkur

Harmonikufélag Reykjavíkur hefur verið eitt allra virkasta harmonikkufélag landsins síðustu áratugina en það hefur komið að því að efla og stuðla að framgangi harmonikkutónlistarinnar með ýmsum og mismunandi hætti s.s. tónleika- og dansleikjahaldi auk kynninga af ýmsu tagi fyrir almenning.

Harmonikufélag Reykjavíkur (upphaflega Harmoníkufélag Reykjavíkur) var stofnað sumarið 1986 í kjölfar innri átaka innan Félags harmonikuunnenda í Reykjavík, Karl Jónatansson hafði haft frumkvæði að því að stofna það félag tæplega áratug áður en það hafði verið í fararbroddi við að efla og styrkja harmonikkutónlistina á höfuðborgarsvæðinu og reyndar um land allt. Karl hafði komið að stofnun þess félags og verið aðal hvatamaðurinn að stofnun þess en hafði í millitíðinni farið til starfa norðanlands og stofnað einnig harmonikkufélög þar auk þess að koma að stofnun Sambands íslenskra harmonikuunnenda (S.Í.H.U.). Hann kom svo aftur suður en fannst frumgildin hafa glatast innan félagsins og þegar hann náði ekki kosningu til formanns stofnaði hann þetta nýja félag – Harmonikufélag Reykjavíkur. Karl hafði þarna um tíma starfrækt Almenna músíkskólann og nokkrir þáverandi og fyrrverandi nemendur hans sem höfðu verið viðloðandi eldra félagið stukku á nýja vagninn með honum en Karl var kjörinn fyrsti formaður félagsins. Einhver kergja varð í garð hins nýja félags en með tímanum minnkaði hún og síðar höfðu félögin jafnvel samstarf sín á milli.

Strax á fyrsta ári var Harmonikufélag Reykjavíkur öflugt í starfsemi sinni og fljótlega var stofnuð hljómsveit innan félagsins, harmonikkuleikarar úr félaginu léku á 17. júní skemmtunum í miðbæ Reykjavíkur skömmu eftir stofnun þess og í ágúst tók félagið virkan þátt í hátíðarhöldum í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkur borgar. Fljótlega kom félagið einnig á fót viðburðum eins og Degi harmonikunnar og Hátíð harmonikunnar en þær áttu eftir að efla hag hljóðfærisins verulega á höfuðborgarsvæðinu. Dansleikir, sunnudagaskemmtanir og aðrar spilasamkomur áttu einnig eftir að verða fastur liður í vetrardagskrá félagsins og þá voru einnig haldnar árshátíðir, nýársdansleiki, þorrablót og annars konar skemmtanir.

Karl Jónatansson var sem fyrr segir fyrsti formaður félagsins, hann gegndi því til ársins 1989 þegar Ólafur Þ. Kristjánsson tók við keflinu, en þess má geta að Karl var síðar gerður að heiðursfélaga í félaginu. Örn Arason tók við formennsku af Ólafi árið 1993 og síðan Örlygur Eyþórsson, Jóhann Haukur Jóhannsson og Ulrich Falkner, flestir í eitt ár hver áður en Ólafur tók aftur við formennsku 1998. Einar Friðgeir Björnsson var formaður einnig í eitt ár en Jón Berg Halldórsson gegndi embættinu á árunum 2000 til 2004, þá tóku Guðrún Guðjónsdóttir, Hildur Petra Friðriksdóttir og Guðrún síðan aftur við 2007 til 2010 en Guðný Kristín Erlingsdóttir varð svo næst í röðinni til ársins 2013. Síðan þá hefur Ólafur Briem verið formaður Harmonikufélags Reykjavíkur.

Stórsveit félagsins

Strax við stofnun félagsins 1986 voru hljómsveitir starfandi innan þess enda voru margir stofnfélagar þess nemendur Karls og höfðu starfað saman í slíkum hljómsveitum innan Almenna músíkskólans. Stórsveit Harmonikufélags Reykjavíkur undir stjórn Karls varð stolt félagsins, fljótlega innihélt hún um tuttugu manns en þegar mest var voru meðlimir hennar líklega um fimmtíu talsins, hún starfaði líklega fram að aldamótum og lék m.a. á plötu með Karli. Fjöldi annarra hljómsveita störfuðu og hafa starfað innan félagsins í gegnum tíðina og hér má nefna sveitir eins og Storminn, Léttsveit H.R., Neista, Hljómsveit Jónu Einarsdóttir og fleiri.

Harmonikufélag Reykjavíkur hefur verið aðili að S.Í.H.U. frá stofnun og komið að ýmsum samkomum tengdum sambandinu, t.d. haldið utan um Ungmennalandsmót sambandsins. Þá hefur félagið farið í margs konar ferðalög bæði innanlands og utan, en hljómsveitir og harmonikkuleikarar á vegum félagsins hafa t.d. sótt harmonikkumót og heimsótt harmonikufélög í Danmörku, Svíþjóð, Færeyjum, Englandi og sjálfsagt víðar. Stórsveit félagsins lék t.d. fyrir troðfullum Glass salnum í Tívolíinu í Kaupmannahöfn árið 1996.

Harmonikan hefur á allra síðustu árum átt heldur undir högg að sækja en e.t.v. er einungis um tímabundna sveiflu að ræða eftir Covid-faraldurinn, enn er starfandi léttsveit innan félagsins og félagar á vegum þess hafa verið í samstarfi við félagsmiðstöðina í Gerðubergi um spilamennsku, og einnig eru reglulega haldnir dansleikir og aðrar samkomur innan félagsins og einnig hefur félagið komið að viðburðum á Menningarnótt í Reykjavík frá upphafi þeirrar hátíðar.