Harmonikufélag Þingeyinga [félagsskapur] (1978-)

Merki Harmonikufélags Þingeyinga

Harmonikufélag Þingeyinga er næst elsta harmonikkufélag landsins, stofnað á eftir Félagi harmonikuunnenda í Reykjavík en félagið hefur starfað samfleytt til dagsins í dag.

Það voru þeir Aðalsteinn Ísfjörð og Stefán Kjartansson sem höfðu frumkvæði að því að setja Harmonikufélag Þingeyinga á laggirnar en þeir vildu vinna að framgangi nikkunnar á Húsavík og nágrannabyggðum í Suður-Þingeyjarsýslu. Þá hafði Félag harmonikuunnenda verið stofnað á höfuðborgarsvæðinu og í kjölfarið var fjöldi slíkra félaga stofnaður víðs vegar um landið en Þingeyingarnir urðu fyrstir til. Stofnfundurinn fór fram vorið 1978 og mættu fjörutíu og tveir á hann, þrettán til viðbótar bættust við á fyrstu dögunum og teljast stofnmeðlimir því fimmtíu og fimm talsins. Auk þess að vinna að og efla framgang harmonikkunnar í sýslunni var tilgangurinn að afla nótna og koma sér upp plötusafni með harmonikkutónlist. ´

Félagið gekk fyrst um sinn undir nafninu Félag áhugamanna um harmonikuleik í Suður-Þingeyjarsýslu en árið 1982 var nafni þess breytt í Harmonikufélag Suður-Þingeyinga enda þótti eldra nafnið helst til langt, nafn þess tók enn breytingum þegar nokkrir nýir félagar úr Norður-Þingeyjarsýslu bættust í hópinn og hét eftir það Harmonikufélag Þingeyinga.

Fljótlega var hljómsveit sett á stofn í félaginu, sú sveit starfaði undir stjórn Guðmundar Norðdahl fyrst um sinn en síðar áttu Sigurður Hallmarsson, Benedikt Helgason og fleiri eftir að stjórna henni, sveitin fór í útvarpsupptökur hjá RÚV árið 1984 og voru þær upptökur leiknar heilmikið í harmonikkuþáttum útvarpsins á næstu árum. Fleiri hljómsveitir hafa einnig starfað innan félagsins, og margar jafnvel á sama tíma, hér er sérstaklega minnst á Strákabandið svokallaða sem t.d. hefur sent frá sér plötur. Félagið hefur aukinheldur verið í samstarfi við annað tónlistarfólk í héraðinu s.s. karlakórinn Hreim.

Stefán Kjartansson var kjörinn fyrsti formaður félagsins en Ingvar Hólmgeirsson tók við formennskunni árið 1980, síðan Sigurður Friðriksson, þá Stefán aftur og Aðalsteinn Ísfjörð árið 1986. Árið 1989 var komið að Stefáni Leifssyni en svo skiptust þeir Sigurður og Stefánarnir tveir á um formennsku nánast allan tíunda áratuginn fyrir utan að Ólafur Arnar Olgeirsson gegndi embættinu um tíma. Á nýrri öld komu ný nöfn að einhverju leyti til sögunnar, Þorgrímur Björnsson og Grímur Vilhjálmsson voru meðal þeirra en jafnframt gegndu þeir Sigurður og Stefán Þórisson embættinu. Þorgrímur var svo aftur formaður félagins á árunum 2011 til 2014 en þá kom fyrsta konan til sögunnar, það var Þórhildur Sigurðardóttir en Sigurður tók svo enn við og svo Jón Helgi Jóhannsson.

Harmonikkufélag Þingeyinga

Félagsstarfið komst fljótlega í fastar skorður, kaffikvöld, spilakvöld, dansleikir, sumarmót, árshátíðir og aðrar samkomur urðu fastir liðir og í mörg ár fór félagið inn á Akureyri til að halda dansleiki þar, eftir að félag var stofnað þar einnig höfðu félögin tvö samstarf en Þingeyingar hafa jafnframt í gegnum tíðina mikið starfað með Héraðsbúum fyrir austan. Þá hafa félagsmenn farið í skemmtiheimsóknir til annarra félaga á landinu auk þess sem farið hefur verið til útlanda í nokkur skipti s.s. til Noregs, Færeyja og víðar, lengi vel var félagsheimilið Breiðumýri í Reykjadal heimavöllur félagsins en það hefur auðvitað haldið samkomur sínar mjög víðar um Suður-Þingeyjarsýslu.

Félagsmönnum fjölgaði nokkuð hratt í byrjun og fylltu hundraðið fáeinum árum eftir að félagið var stofnað, og hafa haldið þeirri tölu nokkurn veginn síðan en sú tala hefur einnig verið mun hærri þegar best lætur. Þingeyingar hafa jafnframt verið duglegir að sækja Landsmót Sambands íslenskra harmonikuunnenda og hafa frá upphafi aðeins einu sinni látið sig vanta, þá hefur félagið tvívegis haft veg og vanda að landsmótinu – þ.e. haldið það.

Harmonikufélag Þingeyinga hefur alltaf lagt áherslu á að efla veg harmonikkunnar í heimabyggð og t.a.m. fært grunn- og tónlistarskólum sýslunnar harmonikkur að gjöf, þá hafa félagsmenn eins og víðast hvar annars staðar heimsótt leikskólana í heimabyggðinni til að kynna hljóðfærið. Þegar menn hafa haft áhyggjur af lítilli endurnýjun innan félagsins hefur verið farið í átak til að kynna tónlistina yngra fólki og hefur það gefist vel, þannig hafa t.d. margir ungir harmonikkuleikarar komið fram á sérsniðnum skemmtunum fyrir þá en þeim yngri hefur einnig verið gert hátt undir höfði á Degi harmonikunnar.

Árið 1998 kom út plata á vegum Harmonikufélags Þingeyinga en þá hélt félagið upp á tuttugu ára afmæli sitt. Platan fékk einfaldlega heitið Harmonikufélag Þingeyinga 1978-1998: Stofnað 4. maí 1978, og á henni var að finna upptökur frá ýmsum tímum úr safni félagsins, upphaflega hafði ætlunin verið að gefa út kassettu en þar sem upptökurnar voru það góðar var afráðið að um geislaplötu yrði að ræða. Árið 2014 var svo gerð heimildamynd um sögu félagsins, hún bar titilinn Harmonikuást og var unnin af Guðmundi Bjartmarssyni en þar var blandað saman viðtölum og myndbrotum frá félagsstarfinu. Einnig voru gefnir út tveir DVD diskar með leik félagsmanna frá ýmsum tímum samhliða þessari útgáfu en verkefnið var gerlegt fyrir tilstilli arfs sem félagið hlaut frá Ásmundi Karlssyni á Vaði en hann arfleiddi Harmonikufélag Þingeyinga að nokkru fé.

Efni á plötum