Háskólakórinn (1972-)

Háskólakórinn 1974

Kórar höfðu verið starfræktir innan Háskóla Íslands svo til samfleytt frá þriðja áratug 20. aldarinnar en það voru lengst af karlakórar undir nafninu Stúdentakórinn. Á öndverðum áttunda áratugnum voru kröfur um blandaðan háskólakór þó orðnar sífellt hærri enda var þá kven- og jafnréttisbaráttan í mikilli sókn og svo fór að slíkur kór var loks settur á laggirnar haustið 1972 og starfaði hann samhliða karlakórnum sem þá var þar starfandi um veturinn en karlakórinn var svo lagður niður fljótlega.

Nýi kórinn var hvorki fjölmennur né burðugur þennan fyrsta vetur enda var hann án stjórnanda en þegar Rut Little Magnússon var ráðin stjórnandi hans vorið 1973 fóru hlutirnir að gerast. Þessi nýi kór gekk í fyrstu undir nafninu Stúdentakórinn en fljótlega hlaut hann sitt varanlega nafn, Háskólakórinn og kom fram undir því nafni á aðventunni í Félagsstofnun stúdenta en það var frumraun kórsins á opinberum vettvangi.

Starfsemi Háskólakórsins komst fljótlega í fastar skorður undir handleiðslu og stjórn Rutar en margir af meðlimum hans höfðu áður sungið í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og öðrum menntaskólakórum. Fljótlega voru um fjörutíu og fimm kórmeðlimir í Háskólakórnum og sú tala átti oft eftir að fara yfir sextíu, stundum voru þó eitthvað færri í hópnum en kórinn hefur oft liðið fyrir skort á karlröddum og hefur jafnvel stundum þurft að hafna nýjum kvenröddum á haustin þegar áheyrnarprófin hafa farið fram svo kynjajafnvægið raskist ekki. Um tíma komu kórmeðlimir úr öllum deildum Háskóla Íslands en það hefur þó ekki alltaf verið raunin, hann hefur lengst af verið rekinn með fjárstuðningi frá Háskóla Íslands.

Verkefni Háskólakórsins hafa verið ærin í gegnum tíðina og fljótlega (1975) tók kórinn þátt í tónleikauppfærslu á Carmina Burana ásamt Söngsveitinni Fílharmóníu, einsöngvurum og hljómsveit, síðan þá hefur hann flutt fjölda stærri verka í samstarfi við aðra kóra og hljómsveitir s.s. Gloria (e. Vivaldi), Requiem (e. Fauré), Messias (e. Händel) og Messu í C-dúr (e. Beethoven), kórinn hefur aukinheldur haldið reglulega sjálfstæða tónleika í eigin nafni og haldið annars konar tónlistartengdar skemmtanir eins og ljóðakvöld o.fl. Fastir liðir í starfsemi kórsins hafa verið jóla- og aðventutónleikar auk vortónleika en hann hefur jafnframt sungið við brautskráningar við háskólann og komið fram á ýmsum öðrum samkomum innan skólans eins og í tengslum við fullveldishátíðina 1. des.

Háskólakórinn 1982

Þrátt fyrir að Háskólakórinn hafi komið að flutningi á mörgum þekktum og stærri verkum var áherslan lengi vel á að flytja íslensk tónverk og kórinn hefur frumflutt fjölda slíkra verka sem mörg hver hafa verið samin sérstaklega fyrir hann, hér má nefna tónlist eftir tónskáld eins og Jón Ásgeirsson, Lárus H. Grímsson, Atla Heimi Sveinsson, Báru Grímsdóttur og Kjartan Ólafsson.

Háskólakórinn hefur nánast allt frá upphafi farið í tónleikaferðir innanlands og utan, en árið 1977 fór kórinn í sína fyrstu utanför þegar ferðinni var heitið til Skotlands. Síðan þá má segja að hann hafi sungið erlendis hartnær annað hvert ár og hér má nefna Danmörku, Sovétríkin, Írland, Holland, Ítalíu, Þýskaland og Bretland svo fáein dæmi séu nefnd en þess má geta að kórinn vann til gullverðlauna á kóramóti í Þýskalandi árið 1998 og aftur í Tékklandi árið 2017. Kórinn hefur einnig margoft farið í styttri og lengri tónleikaferðir innanlands.

Rut L. Magnússon stjórnaði Háskólakórnum á fyrstu árunum og kom honum að segja má á koppinn, haustið 1980 tók svo Hjálmar H. Ragnarsson við og upp frá því var kórinn kominn á meðal fremstu kóra landsins. Undir stjórn Hjálmars kom fyrsta platan út haustið 1983 í tilefni af tíu ára afmæli kórsins, platan bar nafn kórsins og var hljóðrituð í Háskólabíói og Fossvogskirkju og hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu. Um svipað leyti og þessi fyrsta plata leit dagsins ljós tók Árni Harðarson við kórstjórninni en hann stjórnaði kórnum næstu sex árin.

Undir stjórn Árna vann kórinn m.a. leikverkið Sóleyjarkvæði eftir Jóhannes úr Kötlum við tónlist Péturs Pálssonar en í því voru kórmeðlimir í senn söngvarar, leikarar og jafnvel leikmynd en Guðmundur Ólafsson leikari var þar í gervi sögumanns. Verkið var sýnt í nokkur skipti við ágætar undirtektir og var svo gefið út á plötu árið 1985 en upptökur fóru fram í Langholtskirkju, platan hlaut góða dóma í Þjóðviljanum. Kórinn vann einnig að öðru leikverki, Disneyrímum undir stjórn Árna, það verk var skilgreint sem kórkabarett og var byggt á samnefndum ljóðabálki Þórarins Eldjárn við tónlist Árna stjórnanda. Verkið var frumflutt í Tjarnarbíói, svo hljóðritað í stúdíó Stemmu og síðan gefið út á plötu haustið 1988, þess má geta að sjö meðlimir kórsins komu fram sem einsöngvarar í verkinu.

Háskólakórinn

Haustið 1989 tók Guðmundur Óli Gunnarsson við stjórn Háskólakórsins af Árna Harðarsyni og stýrði honum næsta árið áður en Ungverjinn Ferenc Utassy tók við tónsprotanum, Utassy var við stjórnvölinn til 1992 og virðist Gyða Þ. Halldórsdóttir hafa stjórnað kórnum um hríð áður en komið var að Hákoni Leifssyni sem stjórnaði kórnum allt til ársins 2007 (utan eins árs þar sem Egill Gunnarsson leysti hann af), meðal verkefna kórsins á þessum árum var að flytja lög fyrir dómnefnd sem höfðu verið send í samkeppni um háskólalag við ljóðið Vísindin efla alla dáð eftir Jónas Hallgrímsson í tengslum við Reykjavík – menningarborg Evrópu 2000. Undir stjórn Hákons kom út plata, Hlust lögð við stein í Jörfa & íslensk kórlög árið 1997 en kórinn fagnaði um það leyti tuttugu og fimm ára afmæli sínu. Platan sem var hljóðrituð í kapellu HÍ og Seltjarnarneskirkju hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu. Önnur plata kom út undir stjórn Hákons, Í hendi þinni, árið 2006 en hún virðist ekki hafa farið hátt. Plöturnar tvær innihéldu að mestu eða öllu leyti íslensk kórlög. Í tíð Hákons var nokkur áhersla lögð á stærri tónverk og voru þau verkefni gjarnan unnið í samvinnu við kórinn Vox academica sem var skipaður fyrrverandi meðlimum Háskólaskórsins, og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins.

Svipaðar áherslur voru með næsta kórstjórnanda, Gunnsteini Ólafssyni (sem jafnframt stjórnaði Sinfóníuhljómsveit unga fólksins) en hann tók við haustið 2007 og undir hans stjórn komu út þrjár plötur með Háskólakórnum – þar má í fyrsta lagi nefna afmælisplötuna Álfavísur sem var gefin út 2011 í tilefni af fjörutíu ára afmæli kórsins og aldarafmæli Háskóla Íslands, sú plata hafði að geyma 19 lög eftir íslensk tónskáld og höfðu fæst þeirra verið hljóðrituð áður. Einnig kom út plata árið 2015 sem bar titilinn Kvöldlokka og svo Hrafnar árið 2023 en báðar þessar plötur innihéldu íslensk lög. Þess má geta að Háskólakórinn tók þátt í tónleikauppfærslu á óperunni Don Giovanni (e. Mozart) í Eldborg í tónlistarhúsinu Hörpu ásamt Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og einsöngvurum árið 2012 í tíð Gunnsteins en slík samstarfsverkefni með hljómsveitinni voru fjölmörg, mörg þeirra voru hljóðrituð og eru til sem óopinberar útgáfur.

Helga Margrét Marzellíusardóttir var um skamma hríð stjórnandi kórsins árið 2023 en Gunnsteinn er núverandi stjórnani Háskólakórsins.

Efni á plötum