
Haukur Ágústsson
Haukur Ágústsson kom víðar við í tónlistarnálgun sinni, hann samdi tónlist og texta, útsetti, kom að dagskrárgerð, stjórnaði kórum og söng sjálfur en þekktastur er hann þó líklega fyrir að rita um tónlist og önnur menningartengd málefni í dagblöð.
Haukur fæddist haustið 1937 í Reykjavík og þar bjó hann fyrstu tvo áratugi ævi sinnar, hann lærði smávegis á píanó sem barn og svo aðeins meira síðar er hann var á Patreksfirði. Hann söng með nokkrum hljómsveitum á sínum yngri árum, var t.a.m. söngvari skólahljómsveitar Menntaskólans á Laugarvatni þar sem hann var við nám og einnig með danshljómsveit á Patreksfirði þar sem hann var við kennslu í einn vetur eftir stúdentspróf.
Haukur var í Reykjavík allan sjöunda áratuginn, kom eitthvað fram sem dægurlagasöngvari m.a. með hljómsveit Aage Lorange í Silfurtunglinu og kom m.a.s. fram sem einsöngvari við píanóundirleik, en starfaði sem kennari við Langholtsskóla þar sem hann stjórnaði oft söng- og helgileikjum sem hann samdi sjálfur lög og texta við. Slíkir söngleikir vöktu nokkra athygli og einn þeirra, söngleikurinn um Litlu Ljót rataði í Stundina okkar haustið 1967 og þaðan inn á plötu sem SG-hljómplötur gáfu út ári síðar undir titlinum Litla Ljót: ævintýraleikur með söngvum. Haukur var því nokkuð eftirsóttur með þessi atriði sín og samdi t.d. það sem kallað var „dægurtíðir“, eins konar poppmessa sem fjörutíu barna kór flutti, þá stjórnaði hann einnig um tíma stúlknakór við Hallgrímskirkjusókn. Á þessum árum hófst einnig fjölmiðlaferill hans, hann stjórnaði þá sjónvarpsþætti með kristilegu ívafi sem sýndur var á undan Stundinni okkar á sunnudögum og einnig kom hann eitthvað að dagskrárgerð í útvarpi.
Haukur hafði byrjað í guðfræðinámi fljótlega eftir stúdentspróf og lauk því námi undir lok sjöunda áratugarins, svo fór að hann hlaut prestsembætti austur á Vopnafirði (eftir að hafa gegnt stöðu veðurathugunarmanns á Hveravöllum um eins árs skeið ásamt eiginkonu sinni) og þar átti hann eftir að búa og starfa til 1980. Þau prestshjónin tóku virkan þátt í menningarlífinu eystra, þar söng Haukur t.d. eitthvað opinberlega og tók einnig þátt í starfi leikfélagsins á Vopnafirði. Hann stjórnaði einnig Samkór Vopnafjarðar (Söngfélagi Vopnafjarðar) á meðan þau hjónin bjuggu þar en kórinn setti m.a. upp söngleiki eftir Hauk. Á þessum árum sinnti hann einnig tónskáldinu í sér, samdi messu og kórverk en var einnig við skriftir og sendi m.a. frá sér barnabók og annaðist þýðingar. Þau hjónin voru svo einn vetur í Reykjavík þar sem Haukur var við tónlistarnám og virðist sem hann hafi þá að einhverju leyti komið að kórstjórnun Árnesingakórsins í Reykjavík, hann starfaði þá einnig við dagskrárgerð í útvarpi þann veturinn.
Árið 1980 lagði Haukur prestsstarfið til hliðar og sinnti eftir það kennslustörfum, hann var skólastjóri Alþýðuskólans á Eiðum í einn vetur, tók svo við Héraðsskólanum á Laugum í Þingeyjarsýslu og var þar til 1985 en flutti þá inn á Akureyri þar sem hann hefur verið síðan. Þar sinnti hann fyrst kennslu við gagnfræðaskólann en árið 1989 hóf hann störf við Verkmenntaskólann (VMA) og starfaði þar síðan, fyrst sem almennur kennari en síðan sem umsjónamaður fjarkennslu sem var mikið brautryðjendastarf þar sem tölvur og tækni komu mikið við sögu.

Haukur Ágústsson
Hvað tónlistina áhrærir var Haukur jafn öflugur, hann hóf að starfa hjá svæðisútvarpinu á Akureyri og var þar í nokkur ár samhliða kennslunni og hóf svo að koma að öðrum menningarmálum Norðlendinga með ýmsum hætti, hann hafði verið einn af stofnfélögum Menor – Menningarsamtaka Norðlendinga, og tók svo við formennsku þess félags árið 1986 og gegndi því um árabil en undir hans stjórn blómstraði menningarlífið fyrir norðan. Haukur stofnaði djasshljómsveit í eigin nafni sem hann söng með í kringum djasstengda viðburði á vegum Menor og hann átti einnig eftir að syngja djass við ýmis önnur tækifæri, m.a. nokkrum sinnum á djasshátíð Eyjamanna – Dögum lita og tóna. Hann kom einnig í nokkur skipti fram sem einsöngvari með Kór Dalvíkurkirkju.
Árið 1991 hóf Haukur svo að skrifa um menningarmál, einkum tónlist, fyrir dagblaðið Dag á Akureyri. Líklega hefur enginn gagnrýnandi eða blaðamaður menningarmála hérlendis ritað jafn margar greinar og sótt jafn marga menningartengda viðburði hérlendis og Haukur en á næstu tíu árum þeyttist hann um allt norðanvert landið til að sækja slíka viðburði og fleiri hundruð greina eftir hann áttu eftir að birtast á síðum Dags. Síðar ritaði hann einnig um menningarmál fyrir DV og blaðið Akureyri, allt til ársins 2014. Áður hefur aðeins verið minnst á rithöfundar- og þýðendaferil Hauks en þess má geta að hann ritaði einnig ævisögu Björgvins Guðmundssonar tónskálds frá Vopnafirði – Ferill til frama en sú saga var flestum óþekkt fram að því. Og þess má að endingu geta að Haukur samdi (þýddi) textann við jólalagið Mary‘s boy child sem komið hefur út í mörgum útgáfum og undir ýmsum titlum s.s. Forðum í bænum Betlehem, Jólanótt, Á jólanótt og Boðskapur Lúkasar.
Eins og sést á framangreindu kom Haukur Ágústsson víða við í tónlistinni, og þess má geta að hann hlaut heiðursverðlaun Menningarsjóðs Akureyrar fyrir framlag sitt til menningarmála fyrir norðan, einnig hlaut hann fálkaorðuna en það mun hafa verið fyrir störf sín að fjarkennslumálum.
Haukur lést snemma árs 2024














































