Haukur Sveinbjarnarson (1928-2018)

Haukur Sveinbjarnarson

Haukur Sveinbjarnarson (f. 1928) starfaði með og starfrækti hljómsveitir upp úr miðri síðustu öld og að minnsta kosti framundir 1970, hér má nefna t.a.m. S.O.S. og Stereo en einnig hljómsveit/ir í eigin nafni sem m.a. léku á dansleikjum í Selfossbíói á síðari hluta sjötta áratugarins. Hann lék að öllum líkindum á harmonikku á þessum árum og líklega einnig eitthvað á hljómborð eða píanó með þessum sveitum.

Ekki fór mikið fyrir Hauki eftir 1970 en fáeinar heimildir er þó að finna um að hann hafi séð um dinnertónlist og annan píanóleik á skemmtunum, það var svo haustið 1988 sem út kom fjórtán laga platan Kveðja með lögum Hauks og Axels Einarssonar. Nokkur laganna á plötunni voru sungin af Ara Jónssyni, Hjördísi Geirsdóttur og Barða Ólafssyni en önnur voru instrumental (ósungin). Sjálfur lék Haukur á harmonikku á plötunni en nokkrir landsþekktir hljóðfæraleikarar lögðu þeim einnig lið við gerð plötunnar sem Stöðin útgáfufyrirtæki Axels gaf út í samvinnu við Hauk. Titillagið hafði áður komið út á safnplötunni Lagasafnið 1: Frumafl árið 1992 en þar var það sungið af Einari Júlíussyni. Platan var svo endurútgefin á geisladiskaformi árið 1996 en áður hafði hún aðeins komið út á vínylformi – á nýju útgáfunni hafði lögunum verið fækkað niður í tíu og röð þeirra breytt.

Ekki finnast miklar upplýsingar um hljóðfæraleik eða tónlistariðkan Hauks eftir útgáfu plötunnar, þó liggur fyrir að hann kom við sögu á plötu Örvars Kristjánssonar – Rósir sem út kom 1992. Hann mun þó hafa verið að vinna að nýrri plötu þegar hann lést haustið 2018.

Efni á plötum