
Merki HB stúdíós
HB studio / HB stúdíó var hljóðver og útgáfufyrirtæki sem tónlistarmaðurinn Hjörtur Blöndal starfrækti um eins og hálfs árs skeið um miðjan áttunda áratug liðinnar aldar.
Hljóðverið var sett á stofn í upphafi árs 1974 að Brautarholti 20 í Reykjavík, í þeim húsakynnum var skemmtistaðurinn Þórscafé til húsa en heildverslun Alberts Guðmundssonar hafði verið í hluta hússins sem HB stúdíó opnaði, Hjörtur var þá aðeins 23 ára gamall. Tækjakostur hljóðversins samanstóð af tveimur stereo segulbandstækjum og sex rása mixer sem þætti varla boðlegt í dag en við þessar aðstæður voru nokkrar tveggja laga hljómplötur hljóðritaðar og svo gefnar út undir merkjum fyrirtækisins. Opus var hljómsveitin sem reið á vaðið en svo kom út um tugur slíkra smáskífa með hljómsveitum eins og Steinblómi, Hafrót, Melchior og Hirti sjálfum, þær fengu flest allar fremur neikvæða gagnrýni enda þótti hljómur þeirra ekki góður.
Hjörtur missti húsnæðið um sumarið 1975 þegar Þórscafé stækkaði við sig húsnæðið en hann stofnaði þá í samstarfi við Kjartan Eggertsson ferðahljóðver og útgáfufyrirtæki undir nafninu Aðall.














































