Heilsubótarkór í Lýtingsstaðahreppi eða bara Heilsubótarkórinn starfaði um fjögurra ára skeið og var eins konar tenging milli tveggja kóra sem störfuðu í hreppnum.
Forsagan er sú að haustið 1974 hafði verið stofnaður karlakór í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði sem gekk undir nafninu Friðrikskórinn eftir stofnandanum og stjórnandanum Friðrik Ingólfssyni. Ári síðar, haustið 1975 bættust nokkrar konur við hópinn og þá hlaut hann nafnið Heilsubótarkór í Lýtingsstaðahreppi en gekk iðulega undir nafninu Heilsubótarkórinn og var upp frá því blandaður kór. Ekki virðist kórinn hafa sungið opinberlega en var þess í stað eins konar félagsskapur (til heilsubótar) og var jafn mikið lagt upp úr vísnagerð og samveru eins og söng.
Heilsubótarkórinn starfaði til vorsins 1979 en þá um haustið var stofnaður nýr kór upp úr honum og hlaut hann nafnið Rökkurkórinn, sá kór starfaði lengi vel og gerir jafnvel enn.














































