
Frá Heita pottinum 1988
Heiti potturinn svokallaði var félagsskapur sem hélt utan um djasskvöld á Duus-húsi undir sama nafni en eitthvað á þriðja hundrað viðburða voru haldnir á því ríflega fjögurra ára tímabili sem félagsskapurinn starfaði.
Það voru nokkrir tónlistarmenn og djassáhugamenn sem stofnuðu til Heita pottsins vorið 1987 en undirbúningur hafði þá staðið yfir um nokkurra mánaða skeið á undan, þetta voru þeir Egill B. Hreinsson, Davíð Guðmundsson, Guðjón Bjarnason og Tómas R. Einarsson en þeir Egill og Tómas áttu oft eftir að leiða tríó og kvartetta á sviðinu.
Samningar tókust við staðarhaldara í Duus húsi við Fischer-sund um að hýsa klúbbinn og þar voru Heita potts djassviðburðirnir haldnir á sunnudagskvöldum í um fjögur ár. Á opnunarkvöld Heita pottsins hélt Jón Múli Árnason ávarp en klúbburinn var þó aldrei tengdum félagsskapnum Múlanum sem var stofnaður síðar, Heiti potturinn var heldur ekki stofnaður til höfuðs félagsskaparins Jazzvakningar enda fór þar fram annars konar félagsstarfsemi.
Flestir ef ekki allir helstu djasstónlistarmenn þjóðarinnar komu fram á þessum kvöldum og þar var fjölbreytninni fyrir að fara, einnig voru fjölmargar erlendir djasstónlistarmenn sem heiðruðu Heita pottinn með nærveru sinni og þá þurfti stundum að stofna til tónleikahalds á öðrum kvöldum en sunnudögum – meðal erlendra gesta má hér nefna Kenny Drew píanóleikara, Charles McPherson saxófónleikara, Arne Forehammer píanóleikara og Ferenc Bokany kontrabassaleikara svo einhvern nöfn séu nefnd.

Heiti potturinn Duus húsi
Heiti potturinn naut vinsælda og oft var útvarpað frá tónleikunum, reksturinn var þó alltaf erfiður enda var aðsóknin misjöfn eftir kvöldum, félagið naut þó einhverra opinberra styrkja sem munu hafa haft sitt að segja.
Um vorið 1991 höfðu verið haldnir vel yfir tvö hundruð djasskvöld undir merkjum Heita pottsins í Duus húsi en þá var komið að þáttaskilum og klúbburinn færði sig yfir á Vitastíg 3 sem kallað var félagsheimili tónlistarmanna og um það leyti opnaði þar staður með áherslu á lifandi tónlist undir nafninu Púlsinn. Hugmyndin var að Heiti potturinn yrði með uppákomu þar annað hvert fimmtudagskvöld, og þannig varð það fram eftir sumrinu 1991 en þegar leið nær haustdögum fækkaði þeim tónleikum og síðasta Heita potts kvöldið var líklega haldið í september, þá hætti Heiti potturinn störfum og síðan hefur ekki spurst til hans.
Jazzvakning var þar einnig til húsa með sínar uppákomur og fáeinum árum síðar var félagsskapurinn Múlinn (í nafni Jóns Múla Árnasonar) stofnaður svo djasssögu Íslands lauk alls ekki þótt Heiti potturinn tæmdist.














































